08.05.1936
Neðri deild: 69. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í C-deild Alþingistíðinda. (2846)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Frsm. (Gísli Sveinsson):

Eins og nál. á þskj. 567 ber með sér, hefir n. engan veginn orðið sammála um frv., hvorki efni þess né form, enda lá við sjálft, að engu áliti yrði skilað af þeim ástæðum. Það varð þó ofan á að lofa d. að athuga málið. Var að vísu lagt til af n. hálfu, að málið yrði samþ., en þó verður varla sagt, að neinir tveir nm. standi saman um neitt í því. Hlutverk mitt sem framsögumanns er því aðeins það að koma málinu á framfæri, en ekki að tala fyrir því fyrir n. hönd. Að vísu geta einstakir nm. sætt sig við meiri hl. ákvæðanna í frv. En brtt. eru þegar fram komnar, bæði um að breyta einstökum ákvæðum frv. og fella niður heila kafla þess. Ég mun ekki fara út í efni brtt. Flm. geta gert það sjálfir, og mér hefir ekki verið falið það.

Hitt er mér ljóst, að ef frv. á að komast fram nú, er ekki ráðlegt að fara að breyta því, og að mínu áliti eru sum ákvæði þess svo nauðsynleg, að þau réttlæta að samþykkja frv. í heild. Sumt er heimildir, sem sveitarfélögin ráða, hvort þau nota eða ekki, en annað skyldur, sem að mínum dómi er ástæða til að samþ. líka, þótt aðrir telji þau ákvæði hvorki æskileg né nauðsynleg. Nú hafa verið á Alþingi samþ. lög, sem stórum létta á sveitarfélögunum utan bæjanna, og á ég þar við framfærslulögin. Því er í sveitunum ekki eins mikil hætta og áður á óútreiknanlegum útgjöldum, sem ávallt vofðu yfir, meðan hið gamla fyrirkomulag var á fátækramálunum. Í annan stað er það svo, eins og þm. er kunnugt, að annað frv. hefir náð hér fram að ganga, frv. um ríkisstyrk örkumla manna og sjúkra. Og með þeim l. er einnig vafalaust létt af öllum héruðum, líka bæjarfélögum, talsvert miklum útgjöldum, sem hafa verið mest áberandi í sumum héruðum, sem sé berklavarnakostnaðinum, eins og lagaákvæði voru um hann áður fyrr. Mætti því nú um sinn reyna, hversu héruð og sveitir kæmust af með þá réttarbót, sem nú er á orðin. En að lokum vil ég þó geta þess, að ef þetta mál á fram að ganga, þá má að mínum dómi ekki fella úr það ákvæði, sem almennt mundi koma héruðunum að haldi, þ. e. III. kafla. Því að sá skattur, sem I. kafli ræðir um, er aðeins heimild, og mundi vafalaust ekki verða notuð af nærri öllum sveitum landsins. En aðflutningsgjaldsaukningin er í rauninni ekki tilfinnanleg og mundi koma öllum að miklu haldi. Menn hafa rýnt í það, að sveitirnar út af fyrir sig ættu ekki að meðtaka þessar upphæðir eftir þeirri skiptingu, sem áætluð er í III. kafla, heldur sýslufélögin. En að sama skapi léttast gjöld á hreppunum, sem algerlega fara eftir ákveðnu hlutfalli. Annars býst ég við, að þeir nm. og aðrir þdm., sem hafa lagt til að ganga öðruvísi frá þessu frv., muni skýra sitt mál. Mun ég því bíða átekta. En ég legg áherzlu á það, að ef vilji meiri hl. dm. er fyrir, að löggjöf eins og þessi nái fram að ganga, þá er það óráð hið mesta að breyta henni nú á allra síðustu stundu. heldur á að láta við það sitja að samþ. frv. eins og það er nú komið frá hv. Ed.