29.02.1936
Efri deild: 12. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í C-deild Alþingistíðinda. (2871)

37. mál, bændaskólar

*Flm. (Þorsteinn Briem):

Ég hafði ávallt gert ráð fyrir því, að framhaldsdeild slík sem þessi mundi hafa það í för með sér, að nokkuð yrði að bæta við kennslukröftum, við hvorn skólann sem væri, þar sem hún yrði sett. Og ég verð að telja, að endurteknar yfirlýsingar Búnaðarfél. Ísl. og búnaðarþings séu sönnun þess, að ekki sé horfandi í að kosta þessu til að auka nokkuð við kennslukrafta annars skólans í þessu skyni.

En um hitt atriðið, þá gat ég þess aðeins, að með þeirri aðsókn, sem hefði verið að búnaðarskólanum á Hólum um nokkurn undanfarinn tíma, þá mundi mega vænta þess, að þar yrði svo miklu rýmra um húsrúm, að ekki þyrfti að grípa til byggingar á mikilli viðbót á húsum, þó að þessi deild yrði sett á stofn, ef hún væri höfð þar. Skal það að vísu játað, að ég hefi ekki rannsakað þetta mál svo, að ég geti alveg fullyrt um það. En ég vænti þess, að sú hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, taki þetta atriði til athugunar. Gæti þá auðvitað komið til greina, ef það sýndi sig, að slíkri deild yrði við hvorugan skólann komið svo fyrir, að ekki þyrfti að byggja viðbót við hús, að setja það ákvæði inn í frv., að framhaldsdeild þessi yrði þá fyrst stofnuð, þegar fé væri veitt á fjárl. til slíkrar viðbótarbyggingar.

Viðvíkjandi því, sem hv. 4. þm. Reykv. lagði til, að frv. þessu yrði vísað til menntmn., er það að segja, að slíkt er gagnstætt gamalli venju hér á Alþ. (ég skal ekki tala um nýjar venjur í þessu efni). Getur hver hv. þm. sem er flett upp í Alþt. og séð, hvort frv. til l. um bændaskóla, sem nú eru l., hafa ekki verið til athugunar í landbn. Og þar sem svo hefir verið, er þess að vænta, að það þyki eðlilegt, að frv. til breyt. á þeim l. verði einnig til athugunar í landbn.