26.02.1936
Efri deild: 9. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í C-deild Alþingistíðinda. (2880)

43. mál, berklavarnir

*Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Þegar séð var, að n. sú, sem undirbjó frv. um tekjustofna handa bæjar- og sveitarsjóðum, hafði ekki athugað þá leið, hvort ekki væri hægt að létta af þessum sjóðum þeim gjöldum, sem greidd hafa verið frá þeim í ríkissjóð og sem n. hafði gert grein fyrir í framsögu frv. um tekjustofna ríkissjóðs, — þeir töldu það ekki í sínum verkahring að fara þessa leið —, þá þótti okkur hv. þm. Dal. ástæða til, að þessi hlið máls yrði athuguð einnig.

Það er öllum vitanlegt, að berklavarnagjaldið hefir verið ákaflega óvinsælt hjá héraðsstjórnum meðfram af því, að þær hafa víst flestar litið þannig á, að þetta gjald væri einskonar greiðsla til sóttvarna og ríkissjóður hafi skyldu til að sjá um að afstýra sótthættu og smithættu og ætti að bera einn kostnað af þeim ráðstöfunum. Þetta sést m. a. á því, að á undanförnum þingum hafa komið fram frv. um að lækka þetta gjald. Og meðan sýslufélög og bæjarfélög stóðu undir þessu gjaldi eingöngu, var auðsjáanlegt, að þau gátu ekki undir því risið. Þess vegna var breytt um með l. 1933, og ríkissjóður tók að sér meginhlutann af þessum útgjöldum. Ég lít svo á, að það sé ákaflega hæpið að leggja á nýja tolla og skatta, ofan á það, sem fyrir er, og einkum eftir að þær miklu tolla- og skattahækkanir, sem síðasta þing samþ., hafa komið til framkvæmda. En hinsvegar ber að líta á það, að nokkuð af þeim auknu útgjöldum borgaranna í tekjustofna handa bæjar- og sýslufélögum kemur aftur niður sem léttir í aukaútsvörum. En þó hygg ég það verði ekki eins mikið og flm. gera ráð fyrir. Það mun fara svo, ef sýslu- og bæjarfélög geta staðið undir sínum böggum með þessum nýju tollum, þá verður einhverju af þeim gjöldum, sem ríkissjóður annars greiðir, hrint yfir á herðar þessara stofnana. En það er að vísu rétt, að einkum landhreppar munu fá nokkurn létti með þeirri breyt., sem gerð hefir verið, með því að það ákvæði, að viss dvöl væri skilyrði fyrir sveitfesti, var fellt niður. Þess vegna get ég hugsað mér, að einmitt landsveitir hafi betri aðstöðu en áður til þess að standa undir sínum böggum, því að fátækraframfærið hefir lengst af verið stærsti gjaldaliður hjá þeim. En þá er við búið, að þyngslin lendi meir en verið hefir á bæjarfélögum og kauptúnum, eða þeim hreppum, sem hafa kauptún innan sinna takmarka. Hygg ég því, að erfiðleikar á þessum stöðum verði ekki minni eftir en áður, heldur meiri, og að það verði nauðsynlegt að lækka eitthvað þau gjöld, sem beint hvíla á þeim til almennra þarfa. Og þá liggur næst að athuga, hvort ekki megi fella niður þetta gjald, sem hefir þótt ærið ósanngjarnt. Því má bæta við, að á síðustu árum hefir þetta gjald því miður ekki greiðzt að fullu, — langt frá því. Ýms sýslufélög og nokkur bæjarfélög hafa ekki getað staðið í skilum.

Við væntum þess, að þetta frv. megi verða samferða tekjuöflunarfrv. því, sem lagt hefir verið fyrir þingið og fór til allshn. Þetta mál er nokkuð hliðstætt, og legg ég því til, að því verði vísað til allshn.