02.03.1936
Efri deild: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í C-deild Alþingistíðinda. (2907)

46. mál, Reykjatorfan í Ölfusi

*Flm. (Jónas Jónason):

Þetta frv. er eðlileg afleiðing af þeim jarðakaupum, sem ríkið hefir framkvæmt í Ölfusinu fyrir nokkrum árum, og er að því vikið í grg. frv., hvers vegna ástæða er til þess, að um þetta verði sett lög. Ég vil taka það fram, að síðan ríkið keypti þessa eign hefir það byggt þar heilsuhæli, sem reynist ódýrara í rekstri en önnur heilsuhæli á landinu, og síðan komið var á nýrri skipun í berklavarnamálunum undir forustu Sigurðar Sigurðssonar berklayfirlæknis, hefir tekizt að hafa meiri not af þessu hæli en öðrum, með því að senda þangað sjúklinga, sem eru nálægt bata og fyrr komast í það ástand að verða starfhæfir með því að vera þarna heldur en annarsstaðar. Það eru því miklar líkur til, að þetta hæli muni gera mjög mikið gagn, ef hugsað verður um eignir ríkissjóðs á þessu svæði í sambandi við berklavarnirnar. Í öðru lagi hefir á þessum stað verið reist næststærsta gróðurhús landsins — kemur það næst á ettir gróðurhúsinu á Reykjum í Mosfellssveit. Í þriðja lagi mun stj. beita sér fyrir garðyrkjukennslu á þessum stað, og ætti hún ef til vill að geta byrjað í vor, ef frv. um þetta gengur fram á þessu þingi.

Í fjórða lagi hefir rektor menntaskólans í Rvík óskað eftir því, að skólinn mætti byggja þarna einskonar sumarskála handa sér, og hygg ég, að fjársöfnun í því augnamiði sé það langt komið, að þetta gæti tekizt áður en langt um liði. Telur hann það heppilegt úrræði fyrir skólann, ef hann gæti komið þessu við.

Ég lít ennfremur svo á, að þarna væri eðlilegt að hafa ýmiskonar aðra starfsemi. Það hefir verið samþ. hér að vinna að því að koma upp fávitahæli og hæli fyrir drykkjumenn. Þó ég vilji ekki fullyrða, að þau ættu þarna að vera, getur vel verið, að það eigi vel við. Þá er ekki óhugsandi, að koma þurfi upp fleiri elliheimilum og e. t. v. barnaheimilum, og alla slíka starfsemi er eðlilegi að hafa á þessum stað, vegna þess hvað reksturinn yrði þar ódýr.

Nú vill svo til, að nokkrir einstakir menn höfðu byggt hús á þessu landi áður en ríkið keypti það, og hafa þeir enn leigusamninga. Eru þau byggð sem sumarhús, eru nálægt hælinu og taka töluvert af því heita vatni, sem þar er, þannig að það er gróðrarskálunum og hælinu til baga, að þau eru þarna. Nú skal ég ekki um það segja, hvort ástæða er til að taka þessi hús eignarnámi nú þegar; það verður að fara eftir áliti ríkisstj. E. t. v. þarf ekki að taka þau öll, en samt er eðlilegt og nauðsynlegt, að ríkisstj. hafi þessa heimild. Mundu náttúrlega koma til greina sanngjarnar bætur; utan hjá því er ekki hægt að komast og ekkert við því að segja, því þarna er orðið um að ræða svo stóran og þýðingarmikinn rekstur fyrir landið.

Þá hefir Sigurður fyrrv. búnaðarmálastjóri leigt með erfðafestu nokkuð stórt land þarna, sem er einmitt á þeim stað, þar sem garðyrkjuskólinn mundi áreiðanlega þurfa að fá allt land, sem hægt er. Það er ekki sagt, þó frv. yrði samþ., að ríkið þyrfti að taka þetta land strax, en það skiptir í sjálfu sér miklu, eins og með hitt atriðið, að hægt sé að taka það þegar þörf er á. Ég hygg, að ómögulegt sé að koma garðyrkjuskólanum á fót, nema hann geti fengið umráð yfir öllu landinu næst Reykjum. En þurfa mundi í því tilfelli að greiða Sigurði bætur fyrir samninginn.

Þá er enn eftir eitt atriði. Gísli Björnsson. fyrrv. eigandi eignarinnar, á ennþá tvær litlar lóðir, sem hann tók undan, þegar salan fór fram. Ég tel rétt að hliðra nokkuð til við þennan mann fremur en aðra, a. m. k. að því er annan lóðarblettinn snertir. Álít ég, að það gæti jafnvel komið til mála að ganga lengra í því heldur en frv. gerir ráð fyrir.

Ég vil ennfremur benda á, til þess að sýna, hvað þetta er þýðingarmikið mál, að þegar Magnús Kristjánsson, fyrrv. bústjóri á Reykjum, fékk Reykjakot leigt, þá leit þáv. atvmrh. svo á, að ábúðarlögin yrðu ekki öðruvísi skilin en þannig, að hann væri skyldur að byggja jörðina. Ég ætla ekki að deila á hann fyrir þann skilning, en sé hann réttur, vofir sú hætta alltaf yfir, að stærri eða minni svæði af þessari eign verði bundin með samningum, sem svo koma í bága við hagsmuni ríkisins, þegar það þarf að nota landið. Ég bendi ekki á þetta dæmi vegna þess, að það hafi þýðingu nú út af fyrir sig, heldur til að sýna þörfina á að tryggja það, að ríkið eitt hafi umráðaréttinn yfir þessari þýðingarmiklu eign sinni, og að ef einstakir menn fá þar land til afnota, þá sé það ekki bundið samningum nema til eins árs í senn. Það getur vel komið til mála að leigja mönnum tjaldstæði og lóðir undir ódýra sumarbústaði, ef tryggt er, að ríkið þurfi ekki að kaupa af sér aftur samninga, sem gerðir eru við menn í greiðaskyni.

Ég held svo, að ég þurfi ekki að ræða um þetta meira. Ég býst við, að eftir eðli málsins eigi það að fara til allshn., og óska, að því verði vísað til hennar, eða til annarar n., ef það þykir betur hæfa, að lokinni þessari umr.