05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í C-deild Alþingistíðinda. (2912)

46. mál, Reykjatorfan í Ölfusi

*Frsm. 2. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Hv. 1. minni hl. hefir gert grein fyrir sinni afstöðu til þessa máls, og ég, sem er einn á blaði á þskj. 376, hefi ekki getað orðið sammála hinum hv. nm. um afgreiðslu þessa máls, og kemur ágreiningurinn fram í þeim brtt., sem ég leyfi mér að flytja hér. Um fyrri brtt. skal ég segja það, að í frv. er gert ráð fyrir því, að einstök félög eða einstaklingar skuli hafa leyfi til þess að hafa skála eða tjöld til sumardvalar o. s. frv., eins og í frv. stendur, en það liggur í augum uppi að ef þetta er bundið við aðeins eitt ár, eins og frv. ætlast til, þá ættu það að vera fáir, sem byggja sér skýli þarna með það fyrir augum að þurfa að fara burt að ári liðnu, því að það kostar töluvert að koma sér upp sumarskála. Þessu ákvæði hefi ég breytt þannig, að þetta leyfi megi veita til allt að 5 ára í senn. Hv. fyrri minni hl. er á móti þessari till., og skil ég ekki, á hverju hann ætlar að byggja það álit sitt.

Um 2. brtt. sagði hv. frsm. 1. minni hl., að hún hefði lítið gildi, en þó taldi hann, að í henni fælust þau ákvæði, sem gæti orðið samkomulag um, og þykist ég skilja, að hann eigi við það, að hér er breytt nokkuð um orðalag, sem hefir sína þýðingu, eins og t. d. það, að í frv. er gert ráð fyrir því að taka eignarnámi tvær lóðarspildur af fyrrv. eiganda. en eftir því sem mér skilst, er hér ekki nema um eina lóð að ræða. hinn svokallaða Guðrúnarskála, því að í afsalssamningnum stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: „Undanskilinn kaupum er svonefndur Guðrúnarskáli með tilheyrandi lóðarréttindum til afgirtrar lóðar, er skálinn stendur í.“ — Gísli Björnsson hefir rétt til lóðarinnar svo lengi sem skálinn stendur, en hann á ekki lóðina. En samkv. frv. er ætlazt til, að þetta verði keypt af honum.

Um Ekrabarð er það að segja, að það liggur í miðju landi, og með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp það, sem um þetta er sagt í skjali, sem Alþingi barst fyrir ári síðan: „Ekrabarð heitir landspilda, sem liggur austan Varmár, neðan Reykjafoss. Þar er Fosshver og önnur laug allmikil. Þessi landspilda liggur í Reykjalandi, en var að síðustu undanskilin, þá kaupin á Reykjatorfunni voru fullgerð.“

Þarna eru lóðaréttindi, sem sjálfsagt má nota á mjög hagkvæman hátt, og að mínum dómi er sjálfsagt fyrir ríkið að eignast þau.

Eins og hv. þm. hafa tekið eftir, gerir mín till. ráð fyrir, að felld verði burt ein leiguréttindi, sem frv. ætlast til, að tekin verði eignarnámi. Þar er farið fram á tvenn leiguréttindi, ábúðina á Reykjakoti og landspildu, sem Sigurður Sigurðsson fyrrv. búnaðarmálastjóri fékk hjá Magnúsi Guðmundssyni, þáv. ráðh., en eftir öllum gögnum að dæma, sem fram hafa komið í málinu, var þetta upphaflega leyft af fyrirrennara Magnúsar, núv. hv. þm. S.-Þ. Þessi landspilda er eftir afsalssamningi, sem prentaður er í þskj., sögð vera 3,6 ha., en á öðrum stað 4,65 ha.; hvort réttara er, veit ég ekki. Um þessa landspildu var rætt í sambandi við frv. um garðyrkjuskóla á Reykjum, og þá sagði hæstv. dómsmrh., að þessi spilda væri að mestu leyti í Reykjalandi. Ég hefi nú ásamt öðrum hv. meðnm. mínum átt kost á að skoða þetta land, og auk þess hefi ég átt viðtal við bústjórann á Reykjum og við Sigurð Sigurðsson. Bústjórinn segir, að árbakkinn út af fyrir sig hafi ekkert gildi fyrir starfsemina á Reykjum. En af því að um það hefir verið mikið talað, að nauðsynlegt sé að taka þetta land í sambandi við væntanlegan garðyrkjuskóla, þá vil ég benda á umsögn þeirra manna, sem fengið hafa nokkra reynslu í þessum efnum á Reykjum. Þeir segja, að þarna sé ekki heppilegur staður fyrir kartöflurækt undir beru lofti. Þess vegna er það mjög hæpið, að það sé rétt að festa það í löggjöfinni að setja upp garðyrkjuskóla á Reykjum. En ef þarna ætti að hafa einhverja ræktunarstarfsemi um hönd, þá er óþarft að vera endilega að seilast eftir þessum skika, sem liggur meðfram árbakkanum. Mér hefir verið skýrt svo frá, að fyrrv. búnaðarmálastjóri hafi ekki notað þetta land til kartöfluræktar, heldur til grasræktar og kálmetisræktar. Það land, sem hann á sunnan Varmár og ekki er í landi Reykja, er yfirleitt heldur ófrjór og grýttur melur, sem er mjög erfitt að rækta, en hinsvegar telur hann sig geta fóðrað þarna nokkrar kýr, og þess vegna þarf hann að halda þessu landi.

Þar sem ég er viss um, að Sigurður Sigurðsson hefir þörf fyrir þetta land sér til lífsviðurværis, og ég veit, að ríkið þarf ekki nauðsynlega á þessu landi að halda, þá hefi ég leyft mér að fella þessi leiguréttindi burt úr frv., en um hin leiguréttindin, sem um er að ræða, á Reykjakoti, er það upplýst, að bóndinn þar hefir afsalað sér til ríkisins þeim leiguréttindum, sem hann hafði, svo að það er ekki um eignarnám að ræða gagnvart honum, og eins og allir vita, er þarna að hefjast ný starfsemi, þar sem menntaskólinn í Rvík hefir fengið leyfi til þess að reisa þarna sumarskála fyrir nemendur sína.

Ég hefi þá drepið á helztu rökin fyrir brtt. mínum. Að lokum skal ég geta þess, að í landi Reykja eru nú, eins og kunnugt er, nokkrir sumarskálar, sem að dómi þeirra manna, er bezt þekkja til, eru ekki lengur jafngóðir hvíldarstaðir og áður, vegna þeirrar starfsemi, sem þarna hefir risið upp. Landlæknir hefir tjáð mér, að hann væri því yfirleitt mótfallinn, að menn dveldu þarna í sumarskálum í nánd við hælið, og hann hefir ennfremur tjáð mér, að hann væri yfirleitt ekki hrifinn af því að fá skólann einmitt þarna í nánd við hælið.

Ég býst við, að hv. flm. álíti, að ég vilji láta fella niður eitt aðalatriði frv. með þessum till. mínum, en ég vil bara benda honum á það, að Alþingi getur alltaf, ef það telur þess þörf, tekið þetta land eignarnámi.