12.03.1936
Efri deild: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (2916)

69. mál, hrafntinna

*Jónas Jónsson:

Eins og hv. flm. tók fram, þá hefir mál þetta legið fyrir þinginu áður, og voru menn ekki á einu máli um það þá. Að sjálfsögðu tel ég rétt, að frv. verði vísað til n. nú, en jafnframt tel ég sjálfsagt, að n. sú, sem fær það til meðferðar, leiti upplýsinga hjá þeim manni, sem hefir skapað þetta hagfræðilega verðmæti, en það er sem kunnugt er húsameistari ríkisins. Að notkun þessa byggingarefnis sé ekki svo þýðingarlítil, má sjá bezt á því, að ýmsir efnamenn hér í Rvík hafa látið mylja hina eldri múrhúðun utan af húsum sínum og setja þetta nýja efni í staðinn.

Eftir þeirri reynslu, sem fengin er um múrhúðunarefni þetta, þá virðist ekki útilokað, að hér geti orðið um útflutningsvöru að ræða, en mér finnst ekki rétt að binda þann útflutning, sem á þessu kann að verða, við þennan einstaka mann, sem frv. ræðir um, sem sýnilega vill fá rétt til þess að spekúlera með þessa uppgötvun ríkisins. Þá finnst mér og alveg sjálfsagt að hafa hærra útflutningsgjald af hverri útfluttri smálest en frv. gerir ráð fyrir, því að hér er um svo verðmæta vöru að ræða. Eins og ég þegar hefi tekið fram, þá tel ég sjálfsagt, að n., sem málið fær til meðferðar, ráðfæri sig við byggingarfræðing landsins.

Ef þinginu kynni nú að sýnast svo, að í þessu tilfelli væri rétt að veita einkaleyfi til stutts tíma, þá tel ég sjálfsagt, að það einkaleyfi verði ekki bundið við nafn, og jafnframt teldi ég rétt, að stj. væri heimilað að heimta t. d. allt að 20 kr. útflutningsgjald af smálest.

Hv. flm. taldi, að á síðasta þingi hefði svipuð mál og þetta verið samþ. Mun hann þar fyrst og fremst hafa átt við sérleyfið, sem veitt var til þess að vinna innlend litaretni. En þetta er bara ekkert sambærilegt, þar sem þar var um stórt gjaldeyrisspursmál að ræða. Í öðru lagi mun hann hafa átt við víkurinn. Þar skiptir sömuleiðis öðru máli. Hvað hann snertir, þá hafði Sveinbjörn Jónsson byggingarmeistari á Akureyri rutt hér nýja braut og lagt fram mikið fé í þær tilraunir, sem hann hafði gert með þetta efni. Það er því ólíku saman að jafna hvað þessi tvö sérleyfi snertir og það, sem hér er farið fram á að fá. Hér kemur fram alveg óviðkomandi persóna, sem stendur ekki í neinu sambandi við uppgötvunina, maður, sem ekki hefir svo mikið sem leitað til aðalbyggingarfirmanna á Norðurlöndum í þessu sambandi, hvað þá meira. Hann hefir því enga sérstaka ástæðu til þess að vænta þess, að honum verði veitt sérleyfi í þessu tilfelli frekar en öðrum.