12.03.1936
Efri deild: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í C-deild Alþingistíðinda. (2920)

69. mál, hrafntinna

*Flm. (Pétur Magnússon):

Þeir tala um þetta mál, bæði hv. þm. S.-Þ. og hv. 4. þm. Reykv., á þann veg eins og væri verið að binda útflutning á hrafntinnu um aldur og æfi. En ef þeir hafa lesið frv., þá hljóta þeir að sjá, að tíminn, sem hér er ráðgerður, er ekki nema 4½ ár, eða það má gera ráð fyrir, að ekki verði um lengri tíma að ræða. Það er augljóst, að þó að einkaleyfið verði veitt á þessu þingi, getur útflutningur ekki byrjað fyrri en meira en helmingur ársins er liðinn.

Hv. 4. þm. Reykv. er að tala um, að hann sjái ekki ástæðu til að veita þetta einkaleyfi, og hv. þm. S.-Þ. er einnig að tala um það, að það ætti að vera auðvelt fyrir þennan mann að flytja út þessa bergtegund í samkeppni við aðra. En ég vil benda þessum mönnum á það, að það þarf ekki að gera ráð fyrir, að útflutningur fyrsta árið verði verulega mikill. Ef þetta gengur vel, þá fer útflutningurinn smávaxandi ár frá ári, og í frv. er gert ráð fyrir því, að lágmarksútflutningur verði ekki undir 100 smálestum eftir að þetta ár er liðið. En þessi maður, sem ætlazt er til að fái einkaleyfið, hefir ráðgert að setja upp uppi á öræfum, þar sem bergtegundin finnst, talsvert kostnaðarsamar vélar til þess að mala hrafntinnuna þar, í þeim tilgangi að spara flutningskostnaðinn til Reykjavíkur, sem er stór liður í þeim kostnaði, sem hér er um að ræða. Því að það er, að ég ætla, meira en helmingur af bergtegundinni, sem hingað er flutt, sem gengur úr og verður ónýtt, þegar malað er. Það á því að mega spara flutningskostnaðinn um helming með því að setja upp mölunarvélar þar, sem bergtegundin er. En ef þessi maður, sem hér er um að ræða, á að gera ráð fyrir því, að svo og svo margir aðrir verði einnig um þennan útflutning á næstu árum, þá getur hann gert ráð fyrir því, að fyrir þann útflutning, sem hjá honum lendir, muni ekki borga sig að leggja í þann kostnað, sem því er samfara að mala hrafntinnuna uppi á fjöllum. Það er höfuðástæðan til þess, að hann fer fram á að fá þetta einkaleyfi, og hann vill fá nokkurnveginn tryggingu fyrir því að geta fengið endurgreiddan þann stofnkostnað, sem hann verður að leggja i, til þess að geta hagað þessum útflutningi á sem hagkvæmastan hátt.

Það er misskilningur hjá hv. 4. þm. Reykv., að þessi bergtegund sé eingöngu notuð til þess að skreyta með hús. Ef á annað borð á að vera um einhver framtíðarnot að ræða, þá er það af því, að líkur benda til, að hér sé um varanlegri húðun að ræða heldur en kostur er að fá á annan hátt. Þetta sparar málningu, og rannsókn, sem fram hefir farið, bendir í þá átt, að hér sé um varanlega húðun að ræða. Ef svo þessi tilraun lánast vel og útflutningur vex ár frá ári. þá er það augljóst, að þegar frá líður, geti vel komið til greina að flytja út í samkeppni við aðra. En það verður vitanlega að vera einhver lágmarksútflutningur til þess að það geti svarað kostnaði að leggja fram fé til þess að undirbúa þessa vöru til útflutnings.

Ég get ekki séð annað en að það sé fullkomlega eins mikil ástæða til þess að veita þetta einkaleyfi eins og einkaleyfið fyrir vikurútflutningnum, og ef það væri rétt, að þessi maður gæti í samkeppni við aðra lagt í þennan kostnað, sem er samfara byrjunartilraunum í þessu efni, þá hefðu vitanlega þeir, sem flyttu út vikur á sama hátt, getað gert það í samkeppni við aðra. En mér finnst fyrir mitt leyti það undarlegt ósamræmi eftir það, sem gert var á síðasta þingi, ef ætti að synja um þetta einkaleyfi. Það virðist ekki hættulegt að leyfa þessum manni að brjóta ísinn og hafa einn réttinn til útflutnings í 4½ ár, og lofa honum að gera þær tilraunir, sem svo síðar ættu að geta komið að haldi fyrir landið í heild, úr því að hann sjálfur vill ráðast í það.