12.03.1936
Efri deild: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í C-deild Alþingistíðinda. (2921)

69. mál, hrafntinna

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég hefi litlu að bæta við það, sem sagt hefir verið. Ég get lagt það eitt til þessara mála, að ég tel rétt og sjálfsagt, ef hér er um nýja markaðsvöru að ræða, að notfæra sér hana eftir því sem hægt er, því að það eykur erlendan gjaldeyri inn í landið, ef vel selst. — Ég geri ráð fyrir, að þessu máli verði vísað til hv. allshn. Það var sérstaklega þess vegna, sem ég vildi standa upp og leiða athygli n. að því, að athuga um það, áður en farið væri að flytja þessa vöru út í stórum stíl, hve mikið er til af þessari vöru í landinu. Ég veit ekki, hvort það hefir verið rannsakað áður, en mér finnst rétt, áður en nefndin kemur með till. sínar, að afla skýrslna frá jarðfræðingum um það, hvort þeir telja birgðirnar miklar af þessari vöru hér á landi. (PM: Það er áreiðanlega nóg til næstu 100 þúsund ára).