18.04.1936
Efri deild: 51. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í C-deild Alþingistíðinda. (2924)

69. mál, hrafntinna

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Eins og sjá má, er nál. mjög stutt. Hefir n. orðið ásátt um að mæla með, að frv. verði samþ., þó með þeim fyrirvara, að nefndarmenn áskilja sér rétt til að vera með eða flytja brtt. Einn nm hefir nokkru frekari fyrirvara.

Eins og hv. þm. er kunnugt, var shlj. frv. flutt hér á síðasta þingi, og er það nú flutt hér alveg óbreytt, jafnvel þó leyfistíminn styttist við það um eitt ár, þar sem hann er í báðum frv. bundinn við 1940. Ástæðan til þess, að frv. kom fram, er sú, að hér er um efni að ræða, sem líkur benda til, að vinna megi úr vöru, sem hægt sé að afla markaðs fyrir í öðrum löndum. Er hér ekki aðeins um eina fegurstu húðun að ræða, sem völ er á, heldur álíta menn, að hún muni einnig verða mjög varanleg. Er því merkilegt, ef ekki er hægt að ná útbreiðslu fyrir hana í nágrannalöndunum.

Það hefir helzt verið haft á móti frv., að ef líkur væru til, að afla mætti markaðs fyrir þessa vöru, þá ætti ríkið — eða þá finnandi hennar, sem mun vera talinn húsameistari — að taka vinnsluna að sér. En frv. til málsbóta má segja, að þau ár, sem liðin eru síðan þetta efni var fyrst prófað, hefir ekkert verið gert, og ég sé ekki fram á, að þau 4 ár, sem sérleyfið á að gilda, muni nokkuð verða gert, nema einstaklingar brjóti ísinn. Ef ekki tekst að hefjast handa og flytja út a. m. k. 100 smál. á ári, missir sérleyfishafi réttinn. En ef fyrirtækið lukkast, er það hagur fyrir ríkið, ef sérleyfishafi getur unnið markað. Eina ástæðan til þess að vera á móti frv. væri því sú, ef ríkið ætlaði að hefjast handa nú þegar. Það, sem vakti fyrir nefndarm., var, að þeim sýnist frv. í öllu falli meinlaust, en geta leitt til hagsbóta, ef hér gæti orðið um útflutningsvöru að ræða. Það má að vísu segja, að hver einstaklingur sé frjáls að því að hefjast handa og flytja út, en fyrir slíkt fyrirtæki þarf allkostnaðarsaman útbúnað og dýr áhöld, og þarf því að vera nokkur trygging fyrir útflutningnum, til þess að von sé til að hafizt verði handa. Það sýnist hættulítið fyrir hv. d. að samþ. frv., en gæti leitt til nokkurs gagns, ef tilraunin heppnaðist.