15.04.1936
Efri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í C-deild Alþingistíðinda. (2939)

106. mál, drykkjumannahæli

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Það þarf ekki langa ræðu um þetta mál. Það munu allir vera á sömu skoðun um það, að það sé nauðsynlegt, að stofnað sé hæli fyrir drykkjumenn. Áfengisbölið er alþekkt böl, og allar þess hörmulegu afleiðingar, svo að menn þurfa ekki að ganga í neinar grafgötur um það. En hitt er það, að margt kemur til greina í þessum efnum, sem þarf nánari athugunar við heldur en tækifæri gefst til á þessu þingi, því það er orðið svo áliðið þingtímans. En mér þykir vænt um, að frv. er komið fyrir hv. d., og ég geri mér vonir um, að það komist til n. og að hún geti fjallað um það og skilað áliti sínu um það. — Hér er um mál að ræða, sem þarf að tala um og taka afstöðu til. Við höfum enga reynslu af slíkum hælum hér. Þau hafa ekki verið til, en aðrar þjóðir hafa mikla reynslu í þessum efnum, og má þar fyrst og fremst nefna Dani, sem hafa meira en 30 ára reynslu, og hefir sú reynsla leitt í ljós, að það hefir oft verið hægt að bjarga mannsefnum, sem ella hefðu tortímzt vegna drykkjuskapar, og þar með hefir heimilum þessara manna einnig verið bjargað, hvort sem í hlut hafa átt giftir eða ógiftir menn, því allir eiga þessir menn einhverja aðstandendur. Og þegar um það er að ræða, að bjarga einstaklingnum í hverju tilfelli, þá má segja, að verið sé að hugsa um heildina. Þess vegna held ég, að ef við Íslendingar gætum eignazt gott hæli fyrir drykkjumenn, þá mundi reynslan verða sú hin sama hér hjá okkur. Í Noregi er svipað ástatt. Það hefir verið lítið talað um þetta hér. Þó var í fyrra samþ. þál. um það, að skora á stj. að undirbúa löggjöf um drykkjumannahæli og hefjast handa í þessu efni, en það hefir ekki verið gert. Ég ætla nú ekki að endurtaka neitt af því, sem þá var sagt. Ég vil aðeins minna á það, að í Noregi byrjaði starfsemin þannig, að læknafélögin létu þetta mál til sín taka og reyndu að ráða bót á böli ofdrykkjunnar. Það hefir gefizt vel og margir hafa haft gott af starfinu. En af því að aðstaðan til þessa starfs var ekki sem heppilegust, þá fór það á annan veg en við var búizt. En smám saman tók ríkið málið í sínar hendur, og síðan hafa verið starfrækt víðsvegar í Noregi drykkjumannaheimili, og hefir slíkt hvarvetna gefizt hið bezta. — Sem stendur eru starfandi í Danmörku þrjú hæli, sem rekin eru af bindindisfélagi, sem kallast „Blái krossinn“. Það rekur öll þau hæli, sem Danir hafa nú, en það er gert með ríkisstyrk, annaðhvort á þann hátt, að gefið er með einstökum mönnum eða þá að ríkið leggur fram vissa upphæð til hvers hælis. Ég hefi lesið um rekstur þessara hæla og veit, að þau hafa gengið í bezta lagi. Þar er lögð áherzla á að manna þessa menn og hafa á þá siðbætandi áhrif, og svo hinsvegar að styrkja líkamlega heilsu þeirra, en á hvorutveggja er mikil þörf.

Ástandið í þessum efnum hjá okkur er mjög hörmulegt. Það þarf ekki annað en einn ofbeldissaman drykkjumann til þess að sundra heilu heimili, því það getur ekkert við slíkan mann ráðið eða gert. Það hefir stundum verið gripið til þess að setja þá í „steininn“ meðan er að renna af þeim mesti móðurinn, eða þeim hefir verið komið fyrir á Kleppi, þegar bezt lætur. Hvorttveggja þetta eru vandræðaráðstafanir, sem ekki eru til frambúðar, og í sumum tilfellum er síðari villan verri hinni fyrri, ekki sízt þegar þessum vesalingum er stungið inn í „steininn“. Það hefir þó verið dálítil hjálp, þegar Kleppur hefir tekið að sér mann og mann, og hafa þeir þá dálítið lagazt um tíma, en vanalega hefir brátt sótt í sama horfið, og þetta því ekki verið hjálp til frambúðar, heldur aðeins bráðabirgðaúrlausn.

Það má vitanlega segja, að á þessum erfiðu tímum, þegar fátæktin sverfur að þjóðinni, séu ekki tímar til þess að tala mikið um stofnanir af þessu tægi eða öðru. — En mér finnst samt, að ríkið, sem græðir tvær milljónir á ári á vínsölunni, ætti að geta látið af hendi þær sárabætur við öllu því böli, sem fylgir víndrykkjunni, sem í því eru fólgnar að stofna drykkjumannahæli, og er þá enginn að tala um að byrja í stórum stíl. Það getur gefizt vel, þó að byrjað sé í smáum stíl og án þess að kosta mjög miklu til. Það, sem vakað hefir fyrir mér með stofnun slíks hælis, er ekki það, að byrjað sé á því að reisa stórbyggingu né kosta miklu til, heldur að þeir, sem um þetta mál fjölluðu, hefðu það í huga að taka til notkunar í þessu skyni til að byrja með eitthvað af því jarðnæði, sem ríkið hefir þegar til umráða. Mér finnst, að það sé heppilegast að hafa þetta starf með höndum uppi í sveit, þar sem nóg skilyrði eru til vinnu fyrir þessa menn yfir allt árið. Það mun vera undantekningarlaust hjá þeim þjóðum, sem komið hafa upp slíkum hælum, að fyrir valinu hafa orðið afskekkt sveitahéruð. Ég hefi lesið umsögn merks læknis í Noregi, þar sem hann kvartar mikið undan því, að hæli læknafélagsins sé svo mjög í þjóðbraut, að drykkjumennirnir hafi alltaf haft mörg tækifæri til þess að hafa mök við sína fyrri félaga. Til þess eru vítin að varast þau, og til þess minni ég á þetta, að það sé haft í huga í sambandi við málið, því það er vinnufriðurinn og rósemin, sem umfram allt er nauðsynlegt fyrir menn, sem illa eru komnir af völdum vínsins. Og vitanlegt er, að það er mikið hægt að draga úr kostnaðinum með því að hafa bújörð til afnota í þessu skyni, því þá kemur af sjálfu sér ýms arðberandi vinna, sem gæti orðið heimilinu til hagsbóta.

Ég hefi í þessu frv. bundið það við vissan tíma hvenær þetta hæli skuli stofnað, og tiltekið, að það skuli vera stofnað í síðasta lagi fyrir árslok 1937. Með því að tiltaka þetta er ég að reyna að tryggja það, að eitthvað verði gert, og sýnist mér, að það geti ekki verið neitt álitamál, að nauðsyn sé á því, að byrjað verði sem allra fyrst á framkvæmd í þessu máli. — Ég minnist á það í grg. frv., að ég telji heppilegt, að nafnið drykkjumannahæli verði ekki fest við þetta hæli. Það væri heppilegra, ef hægt væri að nefna það einhverju þægilegu nafni, sem gæfi til kynna, hver tilgangurinn væri, án þess að minna of mikið á aðalrót bölsins, drykkjuskapinn. Mér hefir dottið ýmislegt í hug í þessu sambandi, og mun ég biðja n., sem fær málið til meðferðar, að íhuga, hvað henni finnist t. d. um að kalla það bjargstöð. Ef bújörð í sveit yrði fyrir valinu, þá mundi hælið auðvitað fyrst til að byrja með bera bæjarheiti jarðar þeirrar, sem fyrir valinu yrði. Við getum auðvitað aldrei gengið framhjá þeirri sorglegu staðreynd, sem er ástæðan fyrir þessu hæli, en það er mannúðlegt og skynsamlegt að binda ekki um of orsök bölsins við heiti slíkrar stofnunar, sem menn þessir eru sendir í til að fá hjálp og lækningu.

Ég hefi svo ekki öllu fleira við þetta að bæta. Ég veit, að úti um allt land er fjöldi fólks, sem æskir einskis frekar en að eignast hæli fyrir þessa menn. Það má kannske segja með tilliti til eldri mannanna, að það sé of seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í, þó það sé aldrei of seint að byrja á umbótastarfi. Og gagnvart yngri mönnunum, þá er það nauðsynlegt að kippa þeim burtu af braut, sem til glötunar liggur, áður en þeir sökkva svo djúpt, að þeir eiga varla afturkvæmt.

Ég legg svo þetta frv. fyrir hv. d., og óska ég, að hv. allshn. verði látin fjalla um það.