15.04.1936
Efri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í C-deild Alþingistíðinda. (2940)

106. mál, drykkjumannahæli

*Jónas Jónsson:

Ég vil segja fáein orð um þetta frv., því það er orð í tíma talað, og eins og getur um í fskj., þá er full þörf fyrir slíkt hæli. Hitt er annað mál, að það er ekki víst, að það verði hægt að gera það, sem gera þarf í þessu máli fyrir árslok 1937, a. m. k. ekki ef það ætti að vera í stórri mynd. En í þessu kemur fram áhugi hv. frsm.

Ég vil undirstrika það, sem kom fram í síðari hluta ræðu hv. frsm., sem er í ósamræmi við frv., en það er um nafnið á þessu hæli. Ég hallast að því, sem kom fram í ræðunni, en er á móti því eins og það er í frv., að slík hæli séu kölluð drykkjumannahæli. Ég held, að það þurfi, til þess að spilla ekki tilgangi stofnunarinnar, að hafa hana þannig, að það væru fleiri en drykkjumenn, sem þangað kæmu. Þetta er annað aðalatriðið, þar sem svo að segja hver þekkir annan og ekki er t. d. hægt að fara til Hafnarfjarðar án þess að allur bærinn viti það. Ein aðalhættan er, að vitneskja allra um þetta brjóti manninn niður, þar til það er komið inn í meðvitund manna, að þetta sé eins og hver önnur veiki, sem ekki þýði að fordæma fyrir. Ég hygg, að það þyrfti að kalla það taugahæli, og það þyrfti að vera þannig gert, að það færu þangað fleiri en drykkjumenn, og er það í samræmi við það, sem kom fram í ræðu hv. þm.

Ég geri varla ráð fyrir, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, því það er orðið svo áliðið þings. En málið verður að rannsakast í n., og munu allir vera sammála um, að það þurfi að sinna þessu máli. Ef útlit er fyrir, að mikill kostnaður falli á landið, þá hikar ríkið við, þó nauðsyn sé fyrir hendi.

Ég er samdóma hv. flm. um það, að þetta hæli megi ekki vera í þjóðbraut, en þó má það ekki vera svo afskekkt, að erfitt sé að komast þangað. Það hefir í þessu sambandi m. a. verið nefnd jörð nærri Akureyri, sem er fáanleg til kaups fyrir hálfvirði. En það er ef til vill galli á þeim stað, að hann er of nærri bænum, en ég geri ráð fyrir, að það þurfi að rannsaka það nokkuð ýtarlega, hvernig þessu verður bezt fyrir komið. Ég geri ráð fyrir, að það verði ekki komizt hjá því að hafa lækni á hælinu, og þá gerir minna til, þó að það sé afskekkt. Það má þó ekki vera svo afskekkt, að erfitt sé að koma sjúklingum þangað.