17.04.1936
Efri deild: 50. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í C-deild Alþingistíðinda. (2943)

107. mál, fjárforráð ómyndugra

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Svo sem getið er um í grg. þessa frv., er það flutt af allshn. eftir tilmælum hæstv. forsrh. En tildrögin til þess, að frv. er fram komið, eru í stuttu máli þau, sem tilgreind eru í grg. frv.

Sú breyt., sem hér er gert ráð fyrir, að gerð verði á tilskipun frá 18. febr. 1847 um meðferð á ómyndugra fé á Íslandi, er í því fólgin að nema úr tilskipuninni þau ákvæði, að þegar fasteign, sem veðsett er fyrir fé ófjárráðs manns, er boðin upp, þá skuli veita gjaldfrest, svo sem þar er tiltekið, sem mun vera 3 mánuðir, á helmingi kaupverðsins og 6 mánuði á hinum helmingnum. Það hefir nú verið svo undanfarin mörg ár, að þessum ákvæðum um gjaldfrest hefir ekki verið fylgt, síðan það fór að tíðkast, að lán voru tekin út á fasteignir í lánsstofnunum, sem vitanlega voru ekki til, þegar tilsk. var sett, því að það hefir ekki þótt allskostar viðeigandi að hafa þennan frest. En fyrir skemmstu var höfðað mál út af því, að þessu ákvæði tilsk. hafði verið brugðið, og það varð að dómsmáli. Þess vegna er með þessu frv. fram komin till. um að nema þetta ákvæði úr gildi. Annars er ýtarlega um þetta getið í grg. frv.

Síðan allshn. hafði þetta mál til meðferðar hefir mér verið bent á, að það kynni kannske að vera rétt, úr því að hreyft er við þessari tilsk., að taka fleiri atriði í henni til athugunar. Ég hefi ekki rannsakað þetta til hlítar, né allshn. verulega heldur. En ég geri ráð fyrir, að á milli umr. athugi n., hvort ástæða sé til að breyta fleiru í þessari tilsk. en í frv. er farið fram á.