18.04.1936
Efri deild: 51. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í C-deild Alþingistíðinda. (2953)

108. mál, fræðsla barna, skipun barnakennara og laun

*Flm. (Jónas Jónsson):

Ég get ekki glatt hæstv. ráðh. með því, að hann muni auðveldlega sleppa við þá hugmynd, sem í frv. felst. Að vísu gerir þetta mér ekki til, heldur mannfélaginu, og það er þess vegna, að engar líkur eru til, að þjóðin uni við það skipulag, sem frv. í Nd. er byggt á. Í því frv. er ýmislegt, sem sýnir, að þeir menn, sem sömdu frv., hafa ekki verið kunnugir staðháttum. — Ég vil benda á eitt dæmi. Hér í nágrenni Reykjavíkur hafa verið byggðir 2 heimavistarskólar, sem eru að öllu leyti vel vandaðir, og fólkið, sem að þeim stóð, hefir lagt mikið á sig, jafnvel gefið 1100 dagsverk. En hvernig er svo ástandið? Nú er það þannig, að helzt er útlit fyrir, að foreldrarnir neyðist til að taka börn sín heim, vegna þess að það er viss blær á skólunum, sem foreldrarnir geta ekki unað við.

Í því stóra frv., sem liggur fyrir Nd., er ekki eitt orð, sem gerir ráð fyrir uppsagnarrétti skólanefnda gagnvart kennurum. En foreldrunum þykir hart að vera skylduð til að senda börnin í þá skóla, sem þau telja, að hafi spillandi áhrif á börnin. Á þessum stöðum lítur út fyrir, að tveir af beztu heimavistarskólum landsins standi auðir á næstu árum, vegna þess að nú er svo álappalega um búið, að fólkið fær ekki að ráða sjálft kennaravali. Ég skal taka t. d. Eskifjörð. Þar hefir kennarinn eyðilagt ekki aðeins skólann, heldur þorpið allt. Og hæstv. ráðh. veit, að þó að þetta kosti tugi þús. kr., er ekki hægt að losna við hann. Ég býst við, að hæstv. ráðh. væri búinn að losa skólann við hann, ef það væri hægt. Foreldrarnir eiga að vera meira sjálfráðir um, hverjum þeir fela kennslu sinna litlu barna.

Ég er ekki hissa á, þó að eyður séu í frv., því eins og það er hugsað, sýnist fyrst og fremst vera litið á hag kennaranna með því að lengja kennslutímann og hækka kaupið. En í mínu frv. mun fyrst koma fram till. um, að kennararnir hafi eftirlit með börnunum yfir sumarið. Í stærri bæjunum er full ástæða til þess, og margir foreldrar mundu taka því fegins hendi. Um þetta er nokkuð öðru máli að gegna í sveitunum. — Svo að ég tali hreint út við hæstv. ráðh., þá verð ég að segja, að ég tel frv., sem liggur fyrir Nd., svo gallað og ekki svo undirbúið, að hægt sé að samþ. það nú.