25.04.1936
Efri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í C-deild Alþingistíðinda. (2960)

123. mál, klaksjóður og klakstöðvar

*Jónas Jónsson:

Fáein orð um Laxá í Þingeyjarsýslu, sem er önnur af þeim tveimur ám, sem frv. nefnir. Ástandið er þannig, að á norðausturhluta landsins er engin á með verulegum laxi — og meira að segja frá því er Húnavatnssýslu sleppir og í raun og veru þangað til komið er austan um að Suðurlandi, að frátaldri Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu. Lítilsháttar laxá er í Norður-Þingeyjarsýslu og hefir enga þýðingu. En Laxá úr Mývatni hefir verið ágæt laxá til síðari ára, og sú jörð, sem notar hana, hefir verið einhver dýrasta jörð á landinu, meðfram vegna veiðinnar. En nú á síðustu árum hefir veiðin farið mjög minnkandi í þessari á, þannig að núv. bóndi á Laxamýri hefir ekki haft nema 100–150 laxa á ári, í staðinn fyrir nálægt þúsundi áður. Þetta hefir gerzt ár eftir ár, svo að útlit er fyrir, að laxinn sé að eyðast.

Vegna hinnar landfræðilegu legu þessarar ár er óhjákvæmilegt að nota hana, ef á að reisa laxaklakstofnun fyrir Norðausturland. Ég geri sem sé ráð fyrir, að Skagafjörður geti eins fengið laxseiði frá Húnavatnssýslu. En aftur á móti Eyjafjörður og Norður-Þingeyjarsýsla — og sennilega Hérað — geta varla átt betri kost en að fá úr Laxá í Þingeyjarsýslu. (Rödd: Það er dálítil laxá í Vopnafirði). Já, það mun rétt vera, en þó hafa seiðin í Lagarfljót verið flutt sunnan af landi, af því að það hefir ekki þótt taka því að leggja stund á árnar í Vopnafirði í því sambandi.

Nú hefir Kaupfélag Eyfirðinga haft nokkurn viðbúnað um að hefja laxaklak vegna bænda í fram-Eyjafirði, og hefir kaupfélagsstjórinn látið rannsaka skilyrðin fyrir því, að Eyjafjarðará verði laxá aftur. Fiskifræðingar eru þeirrar skoðunar, að lax hafi verið í Eyjafjarðará, en hafi eyðzt af því að hún er svo tær og grunn. Eru því miklar líkur til, að hún geti orðið góð veiðiá á ný, ef flutt eru í hana seiði. Nú hefir kaupfélagsstjórinn á Akureyri reynt — áður en þetta mál kom hér til umr. — að fá samkomulag við bændur í Þingeyjarsýslu um það, að kaupfélagið gerði klakhús við Laxá. Hefir það enn ekki reynzt auðgert, með því líka að fjöldamargir eiga rétt í þessum ám, Laxá í Þingeyjarsýslu og Reykjadalsá. Sérstaklega var bóndinn á Laxamýri fráhneigður því að taka ána undir klak. Er það ekki óskiljanlegt, þar sem hann keypti jörðina meðfram vegna hlunninda, sem laxinn veitti. En í fyrra, þegar mál þetta var til meðferðar, talaði ég um þetta við bóndann á Laxamýri, og hafði hann breytt um skoðun vegna þessa langvarandi aflaleysis, og var eiginlega mjög fús að sætta sig við slíka löggjöf sem hér er á ferð. Náttúrlega er gert ráð fyrir, að fullar bætur komi fyrir til hans og annara eigenda. En það rekur mjög á eftir því að taka þetta mál föstum tökum sem fyrst, að sterkur aðili eins og kaupfélag Eyfirðinga, sem hefir fé og allt, sem þarf til þess að geta komið á laxaræki, hefir ekki getað náð tökum á þessari einu á á þann hátt, sem þyrfti. En eins og ástatt er um laxmergðina nú, lítur út fyrir, að fyrstu árin mundi þurfa allan lax, sem hægt er að fá úr henni, í klak, ef ætti að fullnægja heimilisþörf og aðliggjandi héruðum.

Viðvíkjandi eignarnámi, sem hv. 2. þm. Rang. talaði um, þá býst ég við, að ekki verði komizt hjá að nefna árnar sjálfar í l. Um skattinn skal ég játa, að hann mætti máske vera lægri, og má athuga það betur í n. En frændur okkar Norðmenn, sem lengra eru komnir en við á þessu sviði, hafa svona skatt á laxinum til að styðja klakið. Og þegar litið er á það, hve víða þessi laxveiði getur orðið atvinnuvegur að marki, þá sé ég ekki annað en slíkur skattur sé réttmætur, sé hann ekki ósanngjarnlega hár. Hann er einskonar samábyrgð um að lyfta þessum atvinnuvegi upp. Ég vil t. d. benda á það, að einn af helztu gróðamönnum þessa bæjar hefir verið svo trúaður á það, að hægt sé að hafa stórgróða upp úr laxi, að hann var að mynda umfangsmikinn félagsskap til að kaupa frekar litla á á Snæfellsnesi, og gerir ráð fyrir miklum gróða af þessari einu á, ef vel er á haldið.

Ég hygg, að það sé rétt að taka fyrir tvær ár, og aðra þeirra norðaustanlands, og þá er ekki nema þessi eina, sem gæti komið til greina. En það gæti e. t. v. verið um fleiri að ræða í Húnavatnssýslu eða Borgarfirði, enda veitti ekki af, að komið yrði upp 5–6 klakstöðvum sambærilegum við stöðina, sem Reykjavíkurbær hefir komið upp við Elliðaárnar. Er þar ágætur útbúnaður og góðir menn, og er ekki ofmælt, að það sé stærsta og fullkomnasta klakstöð á landinu, sem mun stafa af því, að einstakir menn hafa ekki kraft til að fylgja því eins vel og bæjarfélagið. En ríkinu ætti ekki að verða skotaskuld úr því að standa þar fullkomlega jafnhllða, og þess vegna dregur að því, að ríkið verður að hlaupa þar undir bagga, og að því er stefnt með þessu frumvarpi.