28.04.1936
Efri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í C-deild Alþingistíðinda. (2965)

123. mál, klaksjóður og klakstöðvar

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég skal ekki tefja tímann, en vil samt geta þess nú þegar, að ég er ekki samþ. frv. eins og það liggur fyrir og mun koma með brtt. við 3. umr. Ég tel ákvæði 4. gr. óheppileg og miklu vænlegra til árangurs, að klakstöðvarnar verði a. m. k. hafðar þrjár. T. d. væri ein höfð í Alviðru, önnur í veiðiá í Borgarfirði og sú þriðja í Þingeyjarsýslu. Með þessu yrði flutningur á hrognum og seiðum miklu auðveldari í þær laxár, sem þyrfti að flytja þau í. En ef ein klakstöð væri höfð í Kjósinni, yrði að flytja seiðin þaðan austur yfir Fjall, upp í Borgarfjörð og norður í Húnavatnssýslu. Auk þess vil ég getu þess, að mér þykir 6 aurar á kg. nokkuð hátt gjald, og get búizt við því, að það veki óánægju meðal veiðimanna. Ætti ekki að þurfa að draga úr framkvæmdum, þótt það væri nokkru lægra.