02.05.1936
Efri deild: 62. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í C-deild Alþingistíðinda. (2976)

123. mál, klaksjóður og klakstöðvar

*Pétur Magnússon:

Ég verð að halda fast við það, sem ég benti á áðan, að það sé heimilt að veiða lax til klaks í hvaða veiðivatni sem er. Í 20. gr. laganna um lax- og silungsveiði segir berum orðum, að lax og göngusilung megi veiða hvar og hvenær sem er til klaks og vísindalegrar starfsemi, og ennfremur segir í 55. gr. sömu laga: „Hverjum manni er skylt að láta af hendi land eða landsafnot, svo og vatn eða afnot vatns, er með kann að þurfa vegna byggingar eða starfrækslu klakstöðvar, svo og þola þær eignarkvaðir, óhagræði og takmörkun á afnotarétti, er bygging klakstöðvar eða starfræksla kann að hafa í för með sér.“ Þessi ákvæði eru öll svo fortakslaus, að það er alveg óhugsandi, að einstaklingar geti komið í veg fyrir, að veitt sé í klak eða klakstöðvar starfræktar í landi þeirra.

Ég held því, að það hljóti að vera einhver misskilningur hjá hv. þm. S.-Þ., að hægt sé eða hægt hafi verið að koma í veg fyrir, að byggðar væru klakstöðvar við Laxá við Mývatn. Að mínum dómi breytir það því engu, þó að 4. gr. frv. verði felld niður.