21.02.1936
Neðri deild: 5. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (2987)

15. mál, vegarstæði um Öxarfjarðarheiði og Hálsa

*Flm. (Gísli Guðmundsson):

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þessa till. Það munu vera rúmlega 10 ár síðan vegurinn um Norðausturland, frá Reykjaheiði og austur á Fljótsdalshérað, var tekinn í tölu þjóðvega. Þá var gert ráð fyrir því, að sá vegur lægi um Öxarfjarðarheiði; en síðan hefir önnur leið, sem liggur norðar, verið tekin í þjóðvegatölu, og þá mun hafa verið gengið út frá því á Alþingi, að sú leið yrði farin, þegar þjóðvegurinn yrði lagður. Að vísu er það svo, að það er ekki enn byrjað á því að tengja saman byggðirnar austan og vestan Öxarfjarðarheiðar með vegarlagningu, en að því kemur vafalaust innan skamms. Hinsvegar hefi ég heyrt, að skoðanir manna væru mjög skiptar um það, hvora leiðina ætti að leggja veginn. Ég hefi heyrt því haldið fram af sumum, að Öxarfjarðarheiði væri miklu greiðfærari, og að það væri miklu ódýrara að leggja veg yfir hana. Ég hefi jafnvel heyrt, að það mundi ekki kosta meira að ryðja veg yfir heiðina heldur en vegarruðningurinn frá Hólsfjöllum til Vopnafjarðar er áætlaður. Að öllu athuguðu tel ég nauðsynlegt, að rannsakað verði sem fyrst, hvor leiðin er heppilegri til vegarlagningar, og þess vegna flyt ég þessa till. Það getur skipt miklu máli með tilliti til þeirra vegaframkvæmda, sem unnar kunna að verða í næstu sveitum við þennan fjallveg.

Ég vænti, að hv. þdm. verði mér sammála um nauðsyn þessa máls og veiti stuðning sinn til þess að till. verði samþ.