20.02.1936
Efri deild: 4. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

5. mál, ríkisútgáfa námsbóka

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég tel, að samkvæmt eðli sínu eigi þetta mál heima hjá menntmn. Þær tölur, sem athuga þarf í sambandi við það, snerta bókaútgáfu með tilliti til þarfa skólanna, og um þar að lútandi ætti menntmn. að eiga auðveldast með að afla upplýsinga, ef þurfa þykir, en ég held, að upplýsingar þær, sem fylgdu brtt. í fyrra, séu nokkurn veginn fullnægjandi í því efni.

Ég hygg, að það sé á misskilningi byggt hjá hæstv. forseta, ef hann telur, að með þessu frv. sé einstökum heimilum íþyngt frá því, sem nú er að því er bókakaup snertir, jafnvel þó hámarkið væri notað og skattgjaldið ákveðið 8 kr. Ég get varla hugsað mér, jafnvel þó sveitaheimili sé, að það geti komizt af með minna til bókakaupa en þetta, ef það á að uppfylla ákvæði fræðslulaganna um þá kunnáttu barna, sem tilskilin er undir fullnaðarpróf. Ég verð að draga í efa, að hægt væri að nota sömu bækurnar frá því 1937 til 1952; það er a. m. k. ekki hægt að reikna með því, að slíkt sé gert nema í sárafáum tilfellum. Á hinn bóginn er ekki vafi á því, að fyrir allan þorra heimila yrði að þessari breytingu mikill léttir, sérstaklega þar sem mörg börn eru, því þó að með sparsemi megi láta fleira en eitt barn nota sömu bókina, þá hljóta þó bókakaupin alltaf að verða meiri eftir því, sem börnin eru fleiri. Eftir rannsókn þeirri, sem gerð hefir verið, telja þeir, sem málið hafa undirbúið, tryggt, að yfirleitt þurfi hvergi að aukast kostnaðurinn við bókakaupin við hið nýja fyrirkomulag, jafnvel ekki þar, sem er aðeins eitt barn, en að hinsvegar mundi leiða af því stórkostlegan sparnað fyrir alla hina.