06.05.1936
Neðri deild: 64. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (3007)

90. mál, áveitur

*Flm. (Eiríkur Einarsson):

Þetta má vera stutt mál, bæði af því að mannfátt er í d. og fundartíma að verða lokið.

Eins og hv. þm. mun kunnugt, þá bar ég fram samskonar till. og þessa á aukaþinginu 1933 í Ed., og náði hún samþykki deildarinnar. Það eina, sem þá var þráttað um, var liður, sem hefir verið sleppt úr þessari till. En í þeim lið sagði svo, að þau áveitufélög, sem borið hefðu skarðan hlut frá borði, skyldu fá samninga, sem væru í samræmi við þá, sem önnur áveitufélög hefðu. Átti ég þar vitanlega við Skeiðaáveitufélagið. Þessu var nú hægt að sleppa úr till., af því að nú liggur fyrir þinginu frv. um áveitu Skeiðamanna til samræmis í þessa átt.

Það er þetta tvennt, sem hér er farið fram á: Annarsvegar að undirbúa og leggja fyrir næsta þing frv. um viðhald og eftirlit allra hinna stærri áveitufyrirtækja, er styrkt hafa verið eða styrkt verða af ríkisfé, og það eftirlit falið Búnaðarfélagi Íslands. Það liggur í augum uppi, að það fer bezt á því fyrir allra hluta sakir, að heildarlög séu sett fyrir öll þessi stóru fyrirtæki. Hefir áður verið rætt um þá nauðsyn, svo að ekki virðist þörf að fjölyrða um það atriði hér.

Síðari liður till. er um það, að stj. láti kunnáttumenn athuga, hvort ekki sé nauðsynlegt að láta stofna tilraunastöð á aðaláveitusvæðunum og koma því máli til framgangs, ef rannsókn leiðir í ljós, að slíks sé þörf. Þetta er hreint óþarft að ræða, því að það vita allir, að það vantar fagmannsþekkingu á því, hvers megi vænta af áveitunum. Það vantar sérfræðingsauga og sérfræðingshönd til að fylgjast með og stjórna þessum málum. Reynslan hefir sýnt, að hinir dreifðu einstaklingar geta ekki einir saman annazt þessi mál. Þeir þurfa til þess handleiðslu og tilraunastöð undir forustu sérfróðra manna. — Þetta er þýðingarmikið atriði, sem ég vona, að allir hv. þm. vilji ljá fylgi sitt, en þar sem þessi till. er endurvakningur, vil ég ekki tefja tímann með fleiri orðum um hana, en fel hv. d. málið til góðrar úrlausnar, og læt þar með máli mínu lokið.