08.05.1936
Efri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (3011)

136. mál, menntun kennara í Háskóla Íslands

*Flm. (Jónas Jónsson):

Ég þarf nú ekki að segja nema fáein orð um þessa till., af því að það fylgir henni nokkuð ýtarleg grg., sérstaklega frá kennarafélaginu, og svo þeirra tillögur í þessu. Ennfremur hefir í sambandi við fræðslulögin verið skýrt frá efni hennar. Á aðalfundi kennara hér í Rvík, þar sem voru mættir 40–50 fulltrúar, var því lýst yfir af þeim, að þeir álitu, að ekki væri nægilega séð fyrir menntun barnakennara og unglingaskólakennara nú sem stendur, og þeir álitu rétt að slá inn á þá leið, sem að nokkru leyti var mörkuð með lögunum um háskólann, og að kennaramenntunin flyttist þangað. Þeir hugsa sér tveggja ára sérfræðinám og praktiska kennslu fyrir menn, sem hafa fengið lengri almennan undirbúning heldur en hægt er að veita nú. Og þeir komust að þeirri niðurstöðu, að það mundi heppilegast að leggja niður núv. kennaraskóla og stofna í staðinn 4 ára skóla, sem tæki við mönnum með nokkurn undirbúning, a. m. k. svipuðum og nú er undir 1. bekk kennaraskólans. Eins og leidd eru rök að í grg., þá er það óframkvæmanleg leið að stofna sérstakan skóla í þessum efnum, þar sem í landinu eru tveir menntaskólar með mjög viðunandi kennslu, eftir því sem hægt er að fá hér á landi. Báðir þessir skólar hafa á síðari árum færzt í það horf að vera meira fyrir lífið en þeir voru áður. Ég vil taka það sérstaklega fram, að þar hefir farið mikið fram íþróttauppeldi frá því, sem áður var; sérstaklega á þetta við um skólann á Akureyri, og hér gengur þróunin líka í sömu átt.

Ég álít, að á þessu stigi málsins sé ekki hægt að fara fram á annað við landsstj. en að hún láti rannsaka þetta til næsta þings, Því er ekki slegið föstu, hvað gera skuli, heldur er ætlazt til þess, að tillögur kennara séu teknar til meðferðar. Sérstaklega vil ég beina því til landsstj., ef hún yrði málinu hlynnt, að hún gerði þá ráðstafanir í sambandi við stjórn háskólans, þannig að það væri gert mögulegt að bæta þessari deild við. Ég veit, að núv. rektor háskólans er þessu fylgjandi og mun gera það, sem hann getur, til þess að undirbúa það, að þessi deild geti komizt á í sambandi við háskólann.

Ég held ég þurfi svo ekki meira að segja, en það gæti verið leiðbeining fyrir ríkisstj. að heyra frá fleiri þm. um þetta, og mun málið væntanlega skýrast við það.