23.03.1936
Efri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

5. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Guðrún Lárusdóttir:

Ég hefi borið fram nokkrar brtt. við frv. þetta. — Ég verð nú að segja, að ég hefi ekki haft mikla trú á ágæti þessa frv. Ég hefi ekki verið trúuð á, að þessi útreikningur geti staðizt. Þó veit ég, að útgjöld til kaupa á skólabókum eru þungur baggi á mörgu heimili. Ef hér væri um að ræða leið til að laga þetta, væri sjálfsagt að gera þessa tilraun. Ég hefi því bundið mitt atkv. við brtt., sem ég hefi borið fram á þskj. 201. Þá vil ég geta þess, að fallið hefir niður athugasemd í sambandi við 1. brtt. mína á þskj. 201. Vil ég því afhenda hæstv. forseta hana sem skriflega brtt., svo að hann geti komið henni á framfæri.

Þetta frv. fer alllangt út fyrir það svið, sem ég tel heppilegt. Ég hefi áður sagt, að ef til vill væri rétt að gera þessa tilraun að því er snertir barnaskóla eingöngu. Og upphaflega mun frv. hafa verið svo hugsað. En síðan var því breytt í þá átt, að það skyldi ná til allra skóla á landinu, og ekki aðeins snerta bækur, heldur og allan varning til skóla, sem pappírsverzlanir selja nú, og er ég því alveg mótfallin, að þannig sé seilzt inn á atvinnugreinar einstaklinga. Ég sé ekki ástæðu til, að ríkið sé þannig að keppa við þegnana um atvinnumöguleika, og finnst mér það heldur eiga að hlynna að atvinnu þeirra.

Fyrir mér vakir, að frv. sé bundið við barnaskólana eina. Þegar svo reynsla væri fengin að því er þá snertir, væri í lófa lagið að bæta við eða draga frá, eftir því hvað þætti heppilegra. Af frv. er og svo að sjá, sem það sé einhver tilraunastarfsemi, sem hér á að hefja. Annarsvegar er ráðgert, að bókagjöldin muni ekki hrökkva fyrir kostnaðinum, og á þá ráðh. að taka lán, en annarsstaðar í frv. er gert ráð fyrir, að afgangur verði, og á þá að færa út kvíarnar.

Þá hefi ég í samræmi við skoðun mína á þessu máli gert þær brtt., að niður falli allar gr. frv. sem lengra ganga en það, sem ég hefi bent hér á. Loks ber ég fram brtt. viðvíkjandi aðiljum þeim, er skipa eiga menn í ritstjórn námsbókanna. Legg ég til, að í staðinn fyrir félag kennara við héraðsskóla og gagnfræðaskóla komi synodus. Ég sé ekki, að kennarar við héraðsskólana séu hér nauðsynlegir aðiljar. Hinsvegar virðist mér prestarnir, sem manna mest hafa fyrr og síðar skipt sér af fræðslu barna og unglinga hingað til, ættu að hafa rétt til að velja mann í nefnd, sem á að sjá um, hverjar námsbækur börnum eru fengnar. Prestarnir eru þeir menn, sem kynnast heimilunum bezt og hljóta samkvæmt stöðu sinni að hafa mestan áhuga á því, að valið á barnabókum takist sem bezt. Ég býst líka við, að fólkið í landinu álíti það bezta tryggingu fyrir því, að vel verði til bókanna vandað, ef prestur er í þessari n. Ég held því fast fram þessari brtt. og bind mitt atkv. við hana.

Ég hefi svo ekki meira um þetta mál að segja, en vona, að ég hafi komið svo orðum að hugsun minni, að hún misskiljist ekki.