09.05.1936
Sameinað þing: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (3020)

72. mál, sjómælingar og rannsóknir fiskimiða

Sigurður Kristjánsson:

Það má segja, að ekki beri mikið á milli nm. um þessa till. Og er það glögg viðurkenning fyrir réttmæti þessarar till. Enda var tæplega um annað að ræða, þar sem þessir sömu hv. þm. voru búnir að samþ. till. einum rómi við fyrri umr. Ég get lýst yfir því, að sjálft orðalag till. er mér ekkert aðalatriði. Hér í till. minni hl. er það tekið fram, bara með öðrum orðum, sem ég meinti með till. Ég felli mig vel við þetta orðalag, sem er í brtt., að rannsóknirnar skuli fara fram með sjómælingum og veiðitilraunum í sambandi við þær. Í minni till. er þetta að vísu sagt óbeint, en ekki beint. Það einasta, sem mér þykir miður fara í brtt. meiri hl., og þá beggja n.hlutanna, er það, að þeir breyta orðalagi minnar till. um það, að „Alþ. ályktar að fela ríkisstj.“, þeir breyta því í heimild. Það má segja ef til vill, að þetta skipti ekki svo miklu máli, vegna þess að ríkisstj. skoði þetta svo, að það sé lagt fyrir hana að framkvæma þetta, þó að orðalagi til sé það heimild. Og mun ég engan ágreining gera út af þessu, en ég vil leggja áherzlu á það, að þó að báðir n.hlutarnir séu sammála um aðalatriði málsins, að þessi rannsókn þurfi að fara fram, og í hvaða tilgangi, þá skilur þó þessa n.hluta talsvert á, því að það er bersýnilegt, að sjónarmið minni hl. er það, sem vera á, að þessar rannsóknir verði framkvæmdar eftir fyrirsögn fiskifræðinga og með aðstoð þeirra manna, sem mest skilyrðin hafa til þess að stjórna þeim á þann hátt, að þær nái tilgangi sínum. Og ég verð að láta í ljós undrun mína yfir þeirri ósvífni meiri hl., að þeir skuli dirfast að líta framan í nokkurn mann eftir að þeir hafa lagt til, að allri þekkingu á þessum málum verði fyrir borð kastað, þegar um það er að ræða, hverjum eigi að fela þessar rannsóknir, og ætla að fara að troða þeim undir menn, sem vitað er, að hafa ekki hina minnstu þekkingu á þessum málum. Aðeins fyrir metnað, og það heimskulegan metnað eins manns eða nefndar, sem tekið hefir að sér þá hluti, er hún ekki ber skyn á, er verið að seilast til verkefna til að reyna að bjarga sóma sínum. Og það er merkilegt, að verið er að seilast til þess að verða falin fjárstjórnin í þessu sambandi.

Er auðséð, að ennþá hefir Alþfl. komið snarvölunni á Framsfl., sem gerir ekki annað en dingla taglinu og lætur svo leiða sig á hinn skipulegasta hátt. Þessi þáltill. var samþ. ágreiningslaust við 1. umr., og mér þætti gaman að sjá, hvort allir framsóknarmenn hafa látið hnýta sér jafnfast í taglið á sósíalistum og fulltrúar þeirra í fjvn. Ef till. meiri hl. fjvn. verður samþ., þá er þekkingin fyrir borð borin með því að hafna till. minni hl. um, að notaðir séu kraftar fiskifræðinganna.

Er sjálfsagt að benda hæstv. stj. á að láta þetta ekki verða hið mesta hégómamál, og aðeins eina leið fiskimálan. til að sóa fé á einn eða annan hátt í vissar persónur, en jafnframt — eins og oft hefir verið gert — traðka á hagsmunum fiskieigenda, — framleiðendanna sjálfra.