09.05.1936
Sameinað þing: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (3022)

72. mál, sjómælingar og rannsóknir fiskimiða

Sigurður Kristjánsson:

Allt, sem hv. 6. landsk. sagði, var, eins og vænta mátti, sagt á móti betri vitund. Ég vil ekki segja þar með, að hann sé verri maður en gengur og gerist í hans flokki en hann var að verja rangt mál, og mátti þess vegna til með að tala móti betri vitund. Hann byrjaði á, að nóg væri búið að tala um fiskimálanefnd og óþarft og óheppilegt væri að draga hana inn í umr. En hvers vegna eru þeir að draga hana inn í þetta mál algerlega að ófyrirsynju? Ég held, að það séu þeir, sem eru að vekja athygli á þessari óheppilegu stofnun, sem ekki hefði verið minnzt hér á, ef ekki hefði verið gefið tilefni til. Út af afsökun hv. þm. á því, að fiskimálan. sé blandað inn í þetta mál, þá vil ég benda á, að það er misskilningur á lögum, — ég skal ekki kalla það annað en misskilning, þó að undarlegt sé, ef 5 menn eru haldnir þeirri villu og skuli ekki sjá, að það er bara vitleysa og óþarfi að blanda fiskimálan. inn í þetta, — því það er skýrt tekið fram í l., að atvmrh. ræður yfir sjóðnum. Og hv. þm. veit það, að hæstv. ráðh. má ekki ráðstafa honum í eitt skipti fyrir öll, og hann má ekki ráðstafa honum svo, að í hvert skipti þurfi að dorga eftir styrk hjá fiskimálanefnd. Það má ekki veita úr sjóðnum nema jafnóðum; og hann er fenginn atvmrh. til umsjár af þinginu, og ber hann því ábyrgð á, hvernig með hann er farið.

Hv. þm. gerði ekki tilraun til að forsvara það, að fellt hafði verið niður með brtt. hans eða meiri hl., að þessar tilraunir skyldu gerðar með aðstoð fiskifræðinga. Hann slær því bara fram, að sjálfsagt sé að hafa þá með í ráðum frá sjónarmiði þeirra manna, er skipa meiri hl. fjvn., en það þarf ekki að vera skoðun fiskimálan. Við vitum, að síðan fiskimálanefnd fór að vasast í þessum málum, þá hefir hún sparkað burtu þeim mönnum, sem vit hafa á málunum, og hefir enginn þeirra mátt nærri koma. Ég er sannfærður um, að henni mundi þykja bezt henta að taka þá Sigurð Jónasson eða Finn Jónsson til að standa fyrir vísindalegum rannsóknum, enda hefir hún fyrr sparkað í menn með viti, til að koma gæðingum sínum að og brúka fé það, er hún hefir yfir að ráða, þeim til framdráttar. Það þýðir ekki að reyna að slá ryki í augu okkar, sem þekkjum hennar starfsaðferðir, enda bera till. meiri hl. fjvn. því vitni, að gefa á fiskimálan. fríar hendur; hún hefir ekki þolað, að fiskifræðingarnir yrðu hafðir með í ráðum, heldur hefir hún kosið að hafa þetta óbundið og geta notað þá menn. er henni sjálfri sýndist, og maður veit, hverjir það eru, sem henni sýnist að fela vandasöm verk.

Ég skal ekki leggja dóm á það fyrirfram, hvort Alþfl. hefir komið múlnum á alla þm. stjórnarflokkanna, en það kemur í ljós við atkvgr. En ef það verður niðurstaðan, að þingið gengur framhjá fiskifræðingunum og öðrum mönnum, sem vit hafa á þessum málum, en setur í staðinn fiskimálanefnd með þeim legátum, sem sýnt er, að hún hefir mesta ást á og vill hafa til að framkvæma sín verk, þá virðist mér, að farið sé að hallast á sóma þessarar stofnunar.