09.05.1936
Sameinað þing: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (3029)

72. mál, sjómælingar og rannsóknir fiskimiða

Jóhann Jósefsson:

Ég hefi engu að svara og stend ekki upp til þess, heldur til að benda á, hvað veigalítil forysta er í þessu undirráðuneyti, sem hér hefir verið komið á fót og kallað er fiskimálanefnd, þegar hv. forstöðumaður ber ekki höfuðið hærra en þetta gagnvart þeim rökstuddu ádeilum um, að hann væri óhæfur til þessa starfs.

Það var viturlegt af hv. þm. að nefna engin dæmi um það, að ég hefði verið sjávarútveginum til bölvunar. Satt að segja mælist ég undan mannjöfnuði við hann í þeim efnum. Ég hefi nú staðið sjálfur fyrir útgerð í um aldarfjórðung, en hvað hann hefir gert, það veit allur landslýður.

Ég minntist á það, að hann seldi olíu. Það er eins og hann álíti þetta skammir, en ég var ekki að tala um þetta í niðrandi tón, — síður en svo.

Þegar á það er litið, hvaða menn hafa völdin í þessu landi og hvaða menn hafa forystu í þessum málum — ja, þvílík forysta —, þá er ekki að furða, þó að aumlega horfi um þennan atvinnuveg, sjávarútveginn, þegar líka séð er, hversu vesöl þessi uppskrúfaða forysta er, sem þröngvað er upp á landslýðinn með lögum.

En tíminn á eftir að leiða það í ljós, hvern ávinning útgerðarmenn hafa af þessari ráðabreytni og hvaða þakkir stjórnarmeirihlutinn fær hjá sjávarútvegsmönnum, sem með þessu fyrirkomulagi er hent út í öngþveitið.