09.05.1936
Sameinað þing: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (3031)

72. mál, sjómælingar og rannsóknir fiskimiða

*Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Það þýðir ekkert fyrir hv. frsm. meiri hl. að vera að reyna að hampa því, að þetta verði ekki framkvæmt á annan hátt en af fiskimálanefnd. — Hann var að tala um, að þetta væru heimskulegar umr., en það er bara afleiðing af þeirri heimsku, að blanda þessum aðilja inn í þetta mál. — Hann var að tala um samvinnu okkar í n. og að þá hefði ekki verið orðað að taka fram í till. um aðstoð fiskifræðinga. En einmitt það, að fiskimálan. átti að taka að sér verkefni fiskifræðinganna, varð þess valdandi, að ágreiningur kom upp og n. klofnaði. Hér í till. báðum er gert ráð fyrir að greiða úr ríkissjóði það fé, sem þarf í tilraunir þessar. Og eins og gengið er frá lögunum um fiskimálasjóð, þá sé ég ekki betur en að fært sé að greiða styrk úr honum án þess að blanda fiskimálanefnd inn i, til að greiða þann styrk, enda er það hrein fjarstæða og tilbúningur, að hún þurfi þar nærri að koma, en er bara gert til þess að ota henni alstaðar fram, eins og gert hefir verið, og ég vil segja öllum til ógagns, og þarf ekki annað en minna á söluna til Ameríku, þar sem n. þessi blandaði sér inn í á ógeðslegan hátt, og fiskfarmurinn var svo að lokum seldur með tapi, eftir að lokað hafði verið fyrir markaðsmöguleikann í bili.