09.05.1936
Sameinað þing: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (3032)

72. mál, sjómælingar og rannsóknir fiskimiða

*Sigurður Kristjánsson:

Ég get verið stuttorður, sérstaklega af því að hv. þm. Borgf. hefir nú tekið af mér ómakið um að svara. — Ég skal taka það fram, að mér þykir leiðinlegt, að hv. 6. landsk. skuli í ræðum sínum verja svo vondan málstað, að hann þarf að fara með blekkingar, og færa fram sem rök það, sem hann veit, að er alls ekki rétt, og hann fer því með móti betri vitund. Hann heldur því fram, að það sé ekki hægt að komast framhjá fiskimálan., af því að það sé beinlínis ætlazt til þess, að hún veiti fé úr fiskimálasjóði. Þetta er ekki rétt, og hv. þm. veit það, að þetta er ekki rétt. Hann veit það, að í till. allra er það tekið fram, að féð skuli greiða úr ríkissjóði, þó að fiskimálasjóður verði látinn greiða það, sem ekki þykir tiltækilegt að greiða úr ríkissjóði, af því það er hans hlutverk að styrkja rannsóknir á þessu sviði. Eins og hv. þm. Borgf. tók fram, er það hin mesta fjarstæða, að þessi fjárveiting þurfi að vera gerð í samráði við fiskimálanefnd.

Ég mundi ekkert hafa hneykslazt á, þó að það hefði verið tekið fram, að fé til þessara rannsókna skyldi greiða úr fiskimálasjóði, ef ekki þætti tiltækilegt, að ríkissjóður greiddi það beint. En það hefir ekki verið, og er ekki tilgangurinn með þessari þáltill., að þetta séu rannsóknir, sem fiskimálan. hafi afskipti af, því það er ekki ofsagt, að þá er verið að fá óhæfum mönnum verkefni í hendur.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Vestm. tók fram, að það var óþarfi að ýfast við þessari till. Hún var formlega og þinglega fram borin, og ég lét hvergi skína í gegn mínar pólitísku skoðanir, heldur hagaði mér gagnvart ríkisstj. eins og „loyal“ þm.

Þegar þessir hv. þm. eru að tala um ofstopa í okkur sjálfstæðismönnum, er það fjarstæða ein og óformlegt mjög, því það eru þessir hv. þm., sem hafa leitt asnann inn í herbúðirnar.

Ég skal, um leið og ég sezt og segi mitt síðasta orð, minna á það, sem hv. þm. Borgf. líka gerði, að framkoma hv. 2. þm. Reykv. ber glöggt vitni hans hugsunarhætti, og líklega hans flokks, þegar hann í ræðu sinni lætur á sér skilja, að við eigum það á hættu, að þáltill. verði felld, ef orðinu „fiskimálanefnd“ verði ekki troðið inn í hana. Hann lét m. ö. o. á sér skilja, að ef fiskimálan. ætti ekki að fá ráð eða afskipti af þessu, þá mundi hann beita sér fyrir því, að þáltill. yrði felld. Þetta sýnir vel hugsunarhátt hans flokks, sem hefir valdið því að hann er orðinn einskonar krabbamein í fisksölumálunum.