09.05.1936
Sameinað þing: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (3054)

131. mál, þjóðleikhúsið

*Héðinn Valdimarsson:

Mér finnst þessi þáltill. losaraleg að orðalagi og hugsun. Hér fylgir að vísu uppdráttur af væntanlegu torgi, en það sést ekki á uppdrættinum, hvaða byggingum á að ryðja burtu. En eftir greinargerðinni í ræðu hv. þm. S.-Þ. er ætlazt til, að kostnaðurinn af því að útbúa þetta torg verði borinn uppi af verðhækkun þeirra lóða, sem yrðu umhverfis torgið. Það er augljóst, að kostnaðurinn verður mikill þegar í byrjun, og ef ætti að vinna hann upp með verðhækkun lóða, þá þyrfti að vera kostur á miklu meira landi undir byggingar umhverfis torgið; og verðhækkunin kæmi ekki nema smámsaman, um leið og byggt væri á lóðunum; hún er alveg undir því komin, og mun því langt eftir henni að bíða. — Ég get ekki betur séð en að það yrði að taka eignarnámi steinhús Andrésar klæðskera, og þykir mér líklegt, að það mundi kosta allt að ½ millj. kr. Það sést ekki á þessari þáltill., hvernig á að afla þeirra peninga, né hvernig á að koma þessu torgi upp. Þetta sýnir, að málið er algerlega óhugsað. Ætlun flm. er sú, að leikhúsið, sem byggt er á skökkum stað, njóti sín betur en nú er, þannig að það sjáist framan á það úr bænum.

Nú er búið að leggja um 3/4 úr millj. í þjóðleikhúsið, og eru þó ótaldir vextir; en enn þarf að auka við 200–300 þús. kr. til að fullgera húsið. Annars er það órannsakað, hvað miklu fé þarf að kosta til þess að gera leikhúsið hæft til afnota, en það eru vafalaust fleiri hundruð þús. kr. Mér þykir óvíst, að þjóðin telji nauðsyn á því, að haldið sé áfram að sökkva peningum í þetta botnlausa fen, sem hv. hv. þm. S.-Þ. hefir átt sinn þátt í, að gert hefir verið. — Af þeim ástæðum, sem ég nú hefi nefnt, legg ég til, að þessari þáltill. verði vísað til stjórnarinnar.