07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (3067)

138. mál, Ítalíufiskur

*Jón Auðunn Jónsson:

Ég verð að segja það um þessa till., sem hér liggur fyrir, að hún er á engan hátt til hagsbóta fyrir sjávarútvegsmenn, sjómenn og útgerðarmenn. Það er öllum vitanlegt, að bankarnir hafa hingað til og munu væntanlega lána yfirleitt útgerðarmönnum og sjómönnum eða fiskeigendum sem svarar 30 kr. út á skippund fiskjar eins og hann er fullverkaður, og svo auk þess oftast 10–15 kr. upp í kostnaðinn við verkunina. Þetta eru 40–45 kr. Aftur á móti er sú greiðsla, sem fiskeigendur þurfa að inna af hendi t. d. á Labradorfiski, en þessi till. er miðuð við sölu á þeim fiski, þessi: salt 9 kr., olía og beita 8 kr., verkun, umbúðir o. fl. 17 kr., hafnargjöld o. fl. 6 kr., eða samtals 40 kr. Söluverð fiskjarins, þegar hann hefir verið kominn um borð, hefir undanfarin ár og nú í ár verið 55 kr. á skippund að meðaltali.

Nú sjá allir, að ef taka á ábyrgð á 75% af söluverðinu, sem er 54 eða 55 kr., þá eru það ekki nema um 40 kr., og þá er það sýnt, að það á aðeins að taka ábyrgð á því, sem bankarnir hafa lánað, en þeir taka alltaf sína greiðslu af þeim fyrstu peningum, sem fást fyrir fiskinn, og það er auðvitað eðlilegt. Þess vegna standa útgerðarmenn og sjómenn þannig að vígi, að þeir fá engan eyri greiddan fyrir að afla fiskjarins fyrr en allt söluverðið er komið hingað heim. Það er því augljóst hverjum manni, sem til þekkir, að samþykkt slíkrar till. er að taka ábyrgð á því, sem bankarnir hafa lánað, en skilja útgerðarmenn og sjómenn eftir án nokkurrar ábyrgðar og án möguleika til þess að þeir geti haldið áfram sínum atvinnurekstri.

Það má öllum mönnum vera ljóst, að þó þeir eigi að fá 12–15 kr. af hverju skippundi fyrir að afla fiskjarins, þá geta þeir ekki með neinu móti aflað fiskjar, ef þeir fá ekki greiðslu fyrr en ári seinna, eða meira en ári seinna en fiskjarins hefir verið aflað. En sannleikurinn er sá, að eins og nú er komið, þá er engin von til þess, að þeir fái greiðslu fyrr. Við erum nú að senda fisk, sem aflað var í febrúar, marz og apríl í fyrra, og það er engin von um, að greiðsla fáist fyrir þann fisk fyrr en kemur fram á haust, nema ríkið hlaupi undir bagga. Það er svo ástatt hjá útgerðarmönnum og sjómönnum, sem eiga hluti sína í þessum fiski, sem sendur var í des., jan., febr. og marz, bæði frá Vesturlandi og Norðurlandi til Ítalíu, að þessir menn eru í hreinustu vandræðum. Þeir hafa ekki einusinni getað fengið olíu til þess að halda útgerðinni áfram, vegna þess að svo lítið hefir aflazt á síðustu vertíð, og þá þora bankarnir ekki að lána þeim. En þeir, sem eiga nokkra peninga, hafa getað fengið lánað út á fiskinn hjá þeim kaupmönnum, sem þeir verzla við. Þeir eiga því nokkra peninga í þessum fiski, sem þeir eiga ekki von á að fá fyrr en kemur fram á haust, eftir því sem salan hefir gengið.

Það er ennfremur svo — og er mér vel kunnugt um það —, að samlagsmenn í okkar fisksölusamlagi hafa alls ekki getað greitt útskipun á fiskinum og pökkun fiskjarins nú undanfarna mánuði. Verkafólkið, sem að þessu hefir unnið, hefir ekki viljað hefta útskipun fiskjarins, en það hefir liðið menn í von um, að þeir fengju borgað fyrir fiskinn, kannske mánuði eftir að hann fór, eða þá næsta eða þar næsta mánuð. Nú eru komnir 5 mánuðir síðan fiskinum var afskipað, og þeir hafa ekki getað greitt neitt ennþá, og það verður ekki hægt að greiða neitt, nema tryggt sé, að þeir fái fulla borgun.

Ég veit ekki, hvað þeir menn hugsa, sem þykjast ætla sér að hjálpa þessum mönnum, þegar þeir bera fram slíka till. sem þessa. Mér er það hrein ráðgáta. Ég hefi þess vegna leyft mér að koma fram með brtt. við þessa till., um það, að ríkissjóður taki að sér ábyrgð á allt að 100% af söluverði fiskjarins. Ég get vel skilið það, að Landsbankinn, sem er sá eini banki, sem hefir lánað Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda fé, sem fer til þess að geta greitt fiskinn við afskipun, vilji ekki taka á sig þá áhættu, sem getur átt sér stað vegna gengisfalls frá söludegi og þangað til fæst greiðsla, en það líða kannske mánuðir eða allt að ári þangað til greiðsla fæst hingað. Bankarnir hafa því sannarlega mikla áhættu. En þegar hægt er að gera þetta án allrar áhættu fyrir ríkissjóðinn, þá verð ég að segja, að ég skil ekki afstöðu hv. þm., ef þeir ætla að samþ. slíka till. sem þessa, ábyrgð handa bönkunum á því, sem þeir hafa lánað, en skilja eftir án hjálpar eigendur fiskjarins, framleiðendurna, sem eru að reyna að halda uppi atvinnurekstrinum í landinu, sjálfum sér og öðrum til hagnaðar, einum stærsta atvinnurekstri landsins og þjóðarinnar, sem gefur langsamlega mestan erlendan gjaldeyri fyrir þessa þjóð, þá er ég meira en undrandi. Ég á engin orð yfir það.