09.05.1936
Sameinað þing: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (3070)

138. mál, Ítalíufiskur

*Jón Auðunn Jónsson:

Ég ætla aðeins að segja nokkur orð út af því, sem hv. þm. V.-Ísf. sagði hér við fyrri hl. þessarar umr. Hann tók það fram, að allir yrðu varir við erfiðleikana. Það er rétt, — allt of margir verða vissulega varir við þá, og engir á þessu landi meir en sjómenn og útgerðarmenn. En það lítur út fyrir, að hv. þm. álíti ekki, að þessir menn verði varir við örðugleikana, því að hann hefir greitt atkv. fyrst og fremst gegn því, að línuútgerðarmönnum sé veitt nokkur hjálp um skuldaskil og að sjómenn geti fengið sinn hlut úr aflanum greiddan fyrr en eftir ár og dag. Ef hann vissi nokkuð um þetta mál, ætti honum að vera kunnugt um, að helmingur af öllum aflafeng a. m. k. verður að seljast til clearing-landanna. Verði till. þessi samþ., þá fá sjómenn og útgerðarmenn, eins og ég hefi sýnt fram á, ekkert af því, sem þeir eiga í aflanum, fyrr en búið er að gera allt upp. Bollaleggingar hans um, að mín till. muni leiða til þess, að meiri eftirspurn verði eftir erlendum gjaldeyri, er út í hött. Hér er bara um það að ræða, hvort sjómenn og útgerðarmenn eiga að geta fengið sinn hluta úr aflafengnum, þegar búið er að selja á erlendum markaði, en þurfi ekki að bíða hálft eða heilt ár eftir andvirðinu, eins og verið hefir. Þetta er þungamiðja málsins, og engin önnur. Ég vil ekki ætla, að hv. þm. vilji vitandi vits koma í veg fyrir, að ríkissjóður taki ábyrgð á gengissveiflum, sem verða kunna í þessum löndum, sem kaupa fiskinn, því að þá gæti farið svo, að sjómenn og útgerðarmenn fengju ekki einn eyri fyrir fiskinn. Hinsvegar þarf þetta ekki að kosta ríkissjóð einn eyri, því að stj. hefir tök á að gera ríkissjóð skaðlausan í þessu efni. Annars kann ég ekki við að vera að endurtaka útskýringar mínar á þessu máli.