09.05.1936
Sameinað þing: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (3071)

138. mál, Ítalíufiskur

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Af því að ekki á að hafa langar umr. um þessa till., mun ég ekki segja nema örfá orð, þó að ástæða væri til að hafa þau mörg. Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að till. um 75% ábyrgð væri þýðingarlaus fyrir útgerðarmenn, því að 75% svöruðu aðeins til framleiðslukostnaðar fiskjarins. Hann sagði, að til að borga framleiðslukostnaðinn fengju þessir menn lán hjá bönkunum, og væri því þetta bara til að tryggja, að þessar lánsstofnanir fengju sitt fé. Ég skil nú ekki, að það sé þýðingarlaust að tryggja, að þessir menn geti greitt þeim stofnunum, sem hafa lánað þeim, og með því skapað sér grundvöll til að fá frekari lán. Ef þetta er einskis virði fyrir framleiðendur, þá veit ég ekki, hvað yrði talið mikils virði. Hvað gætu þeir yfirleitt gert, ef þeir fengju hvergi fé til að gera út? Það er auðvitað óeðlilegt, að ríkissjóður taki á sig alla ábyrgðina, en um það má deila, hvar setja beri takmörkin. Ríkissjóður getur ekki tryggt fyrir afla bresti eða öðrum óhöppum, sem verða kunna. Er talið rétt að koma nokkuð til móts við framleiðendur, og er till. borin fram í þeim tilgangi.

Þá vil ég taka undir það, sem hv. þm. V.-Ísf. sagði, að fyrir þjóðina væri aðeins til ein lausn á þessu máli, sú, að nota sér sem fyrst og bezt þann gjaldeyri, sem þarna frýs inni.

Þegar hér var til meðferðar á þingi frv. um að fá innlausn á mörkum í Þýzkalandi, vann ég að lausn þess máls, og varð sú skipan á þeim hlutum, að ekki hefir þótt vera þörf á að fá ábyrgð á þeim innistæðum. En um Ítalíu er öðru máli að gegna. Eru ekki líkur til, að hægt sé að losna við lírurnar strax, og því er gengið inn á þessa braut. En auðvitað getur ríkið ekki ábyrgzt allt.