19.02.1936
Sameinað þing: 3. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (3085)

75. mál, þingfréttir í útvarpi

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég skal leyfa mér að vekja máls utan dagskrár á atriði, sem snertir Alþingi allt og ég og fleiri þm. hafa fengið nokkra tilkynningu um, eins og allur almenningur, í ríkisútvarpinu fyrir nokkru. Þessi tilkynning, sem útvarpsstjóri flutti, var á þá leið, að ríkisútvarpið mundi nú að gefnu tilefni stytta mikið þær fréttir, sem sagðar eru frá Alþingi, og ekki greina nema það allra nauðsynlegasta í máli hverju, svo sem aðalatriði í frv., en ekki grg., og allra sízt að laga fréttaflutninginn í hendi sér, eins og fréttamanna er síður, til þess að gera frásögnina aðgengilegri. Útvarpsstjóri upplýsti það, sem raunar allir vita, að ríkisútvarpið hefir ekki sótzt eftir því að hafa með þessar fréttir að gera einvörðungu og vill koma þeim af sér til þess aðiljans, sem að dómi útvarpsstjórans og að dómi Sjálfstfl. er betur til þess fallinn, sem sé Alþ. sjálfs eða skrifstofu Alþ. Það er sá aðili, sem virkilega ætti að hafa þetta starf með höndum og getur það. Það er ótvírætt, að ríkisútvarpið telur sér feng í því að fá glöggar fréttir af Alþingi, og það er vitað, að allur almenningur óskar þess og myndi krefjast þess að fá þær fréttir sem greinilegastar og sem gleggstar frá sjónarmiði flokka og manna á Alþingi, því það er sú stofnun, sem almenningur lætur sig miklu skipta. Ég er alveg á sama máli og útvarpsstjóri, að Alþingi sjálft ætti að hafa þetta starf með höndum. Það hefir farið vel í höndum Alþingis áður, þegar það hefir lagt til mann af sínu liði. Hér er ungur maður í skrifstofunni, sem flutti þingfréttir fyrir nokkrum árum og gerði það mætavel. Einnig hafði útvarpið ráð á manni, sem flutti þingfréttir óaðfinnanlega. Báðir þessir menn fylgja að sjálfsögðu einhverjum stjórnmálaflokki og eru þar áhugamenn, en það kom ekki fram hjá þeim við flutning fréttanna, sem voru ýtarlegar og hlutlausar og báru það með sér, að þeir voru inni í málunum. Einnig færðu þeir til rök þm. og flokka, og er ekkert athugavert við það, þó slík rök komi fram. Það er ákjósanlegt fyrir fólkið að heyra þau, þar sem þingtíðindin eru yfirleitt alls ekki lesin og langur vegur er frá því, að blöðin flytji svo góðar og greinilegar fréttir sem vera bæri. Þau flytja fyrst og fremst „litaðar“ fréttir frá sínum bæjardyrum, og það má til sanns vegar færa, að það geti ekki verið öðruvísi. En fréttirnar eru ónógar og afarlítið á þeim að græða fyrir fólk, sem ekki fylgist að öðru leyti með málunum. Útvarpsfréttir geta bætt mikið úr þessu, og hafa þegar gert það. — Ég tel sjónarmið forseta Alþ. algerlega rangt. Það er að vísu svo, að þeir þykjast hafa vald til þess æ ofan í æ að reka þetta mál frá sér og jafnvel hundsa það. En ég efa, að það geti legið í þeirra verkahring að þm. fornspurðum. — Ég vil líka minna á það, að Alþ. getur ráðið mann til þessarar fréttastarfsemi, þó að útvarpið borgi fyrir hana. Það er dálítið annað en að útvarpið ráði einhvern héðan eða þaðan, lítt kunnan þessum efnum; og það er sannast sagna, að sá maður, sem útvarpið réði í fyrra, var ekki vel þokkaður sem þulur. Honum liggur ekki þannig málfar, að hann sé til þessa starfs heppilegur, og hann þótti líka bera það með sér, að hann væri ekki vel inni í málunum. En ef þm. vilja stuðla að því, að fréttirnar séu sagðar greinilega og af þekkingu, þá er líka skylt, að Alþ. blandi sér í málið, því það er verið að segja frá störfum þess og frá málum þess. Ég vil því leyfa mér að beina þeirri ósk til forsetanna, að þeir taki þetta mál nú aftur til rækilegrar athugunar.

Till. mín er þessi, að skrifstofa Alþ. taki að sér að ráða um flutning frétta frá Alþ., enda þótt útvarpið borgaði kostnaðinn. Og ef þess þyrfti með að ráða sérstakan mann í skrifstofu Alþ. einhvern tíma úr árinu vegna flutnings frétta frá Alþ. til hinna mörgu útvarpshlustenda víðsvegar um land, þá tel ég það sjálfsagt. Ég tel, að hér sé svo mikið í húfi, að ekki sé í þann kostnað horfandi.