03.03.1936
Neðri deild: 14. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (3091)

75. mál, þingfréttir í útvarpi

*Forseti (JörB):

Eftir það umtal, sem orðið hafði í Sþ. um flutning þingfrétta í útvarpið, áttu forsetar tal saman um það, hvernig honum yrði fyrir komið. Áður höfðu bréf farið á milli forseta og útvarpsins um flutning þingfrétta, og höfðu forsetar haldið fram af sinni hálfu, að heppilegast mundi, að útvarpið annaðist þennan fréttaflutning sjálft og réði mann til þess starfs, enda fengi það að sjálfsögðu aðgang að bókum þingsins og öðrum skilríkjum, sem á þarf að halda við að útbúa fréttirnar. Óskuðu forsetar fyrir sitt leyti gjarnan eftir að vera lausir við að þurfa að sjá um flutning fréttanna. Nú hafði komið hér fram á fundi — ég var þá ekki viðstaddur — ósk af þm. hálfu um, að Alþingi sæi sjálft um fréttaflutninginn; var það tekið fyrir af forsetum og kom til orða, að þetta starf yrði annazt af þingsins hálfu. Um þetta hafa staðið málaleitanir, en málinu er samt sem áður ekki lokið, og ég get ekki að svo komnu sagt um, hvernig það kann að skipast.