19.03.1936
Sameinað þing: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (3095)

75. mál, þingfréttir í útvarpi

*Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Það ætti ekki að þurfa langa flutningsræðu fyrir þessu máli, þar sem það hefir komið inn í þingið áður, þó óforvarandi hafi verið, og hefir því verið veifað utan dagskrár, bæði í hv. Nd. og Sþ. En þar sem þær málaleitanir hafa ekki borið nægilegan árangur, þá þykir ekki annað hlýða en flytja það í þál.formi, þar sem farið er fram á, að Alþingi verði við ósk útvarpsstjórnar um að þingið taki í sínar hendur flutning þingfrétta í útvarpi, en forsetar hafa ekki viljað verða við þeim tilmælum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Íslendingar hafa fengið orð fyrir að vera sagnaþjóð. En þó að þeir hafi alltaf viljað heyra tíðindi, þá hefir þó verið misjafnt, hvernig menn hafa hlustað eftir fréttum, en það hefir farið eftir því, hvernig fréttirnar hafa verið fluttar. Sannar, greinilegar og fjörugt fluttar fréttir, sem veitt hafa mönnum ánægju, hafa jafnan þótt beztar, og eftir þeim hefir sérstaklega verið hlustað. Allt fram að síðustu árum hefir fólk ekki átt kost á að hlýða á fréttir og tíðindi nema helzt heima hjá sér; það hefir orðið að lesa og rýna í bækur til þess að svala fróðleiksfýsn sinni. En eins og nú er komið, þá á almenningur kost á að hlusta á tíðindi heima hjá sér, sem sögð eru í meiri eða minni fjarlægð. Það er því nauðsynlegt, að sá fréttaflutningur, sem fólk fær á þennan hátt, sé góður, bæði að efni og orðfæri. Að þessu er okkur Íslendingum skylt að hlynna, og okkur á ekki að verða nein skotaskuld úr því að fá fréttir vel og greinilega fluttar, þar sem við eigum hið forna mál, sem við erum stoltir af og hljóma mun bezt allra mála á jörðinni. Þess ber þó jafnframt að gæta, að þó að málið sé mála bezt til þess að flytja á því, þá eru ekki allir, sem fréttir flytja, jafnáheyrilegir, en tillit til þess verður að taka, þegar menn eru valdir til þess að flytja fréttir. Ég ætla ekki að þessu sinni að fara að leggja neinn dóm á það, hvort hinu unga útvarpi hefir tekizt vel um val fréttamanna. En að sjálfsögðu ber útvarpinu að gæta þess, þegar það velur menn í þjónustu sína til fréttaflutnings, að þeir séu vel til þess starfa fallnir, flytji fréttirnar rétt og greinilega, og alveg hins sama ber Alþingi að gæta, ef það velur menn í þjónustu sína til fréttaflutnings í útvarpi.

Áður en útvarpið kom til sögunnar, átti almenningur ekki kost á að fá þingfréttir nema á tvennan hátt. Í fyrsta lagi gegnum blöðin, og það verð ég að segja, að fréttaflutningur blaðanna hefir sízt farið batnandi hin síðari ár; fréttirnar hafa ýmist verið of lítilfjörlegar eða of mjög litaðar pólitík. Annars skal ég játa það, að ekki er hægt að krefjast þess af blöðunum, sem flest hafa mjög takmarkað rúm, að þau flytji allar þær þingfréttir, sem almenningur vill fá að heyra. Þá hefir fólkið í öðru lagi átt kost á þingfréttunum gegnum Alþingistíðindin, sem flytja bæði þingskjölin og ræður þingmanna. En sá galli hefir verið — og er þó ennþá meiri nú en áður — á þeirri gjöf Njarðar, að Alþingistíðindin er sú bók, sem almenningur les hvað minnst allra bóka, sem út koma og hann á kost á. Fólkið vill ekki það, sem orðið er úrelt. Meginhluti þingfréttanna er kominn á prent áður en Alþingistíðindin eru prentuð, og því kominn út til fólksins löngu á undan þeim. Það er því með öllu þýðingarlaust að vera að burðast lengur með prentun umræðuparts Alþingistíðindanna.

Eins og fréttaflutningi frá Alþingi er nú háttað, er honum stórkostlega ábótavant, og honum verður ekki komið í gott horf nema með því móti, að fréttirnar verði fluttar gegnum útvarpið, en ekki eins og þær hafa verið fluttar, heldur skýrt og greinilega, svo almenningur vilji og geti hlustað á það, sem flutt er.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns, þá eru Íslendingar sagnaþjóð, en „sögn“ og „frétt“ eru náskyld hugtök, og því er það, að fólkið vill heyra fréttir, og það á að flytja því fréttir. Enn þann dag í dag er t. d. sú venja, sem tíðkazt hefir um raðir alda, að Íslendingar spyrjast frétta, strax eftir að þeir hafa heilsazt. — Nú verður því ekki í móti mælt, að það er fólkið, almenningur í landinu, sem hefir sent okkur hingað á Alþingi; það vill því eðlilega fá að vita, hvað hér fer fram. Eins og ég þegar hefi tekið fram, þá hafa þingfréttir verið fluttar í gegnum útvarpið, en það hefir verið misjafnlega gert, fréttirnar í mörgum tilfellum ekki nægilega greinilegar, sem stafað hefir m. a. af því, að sá, sem fréttirnar hefir sagt, hefir ekki verið nógu kunnugur málunum til þess að geta sagt svo frá, að fólkið fengi samhengi í fréttirnar. Nú ber svo til, að frá þessu þingi munu fréttirnar, sem sagðar eru í útvarpið, vera minni og ógreinilegri en þær hafa verið frá undanförnum þingum, sem stafa mun af því, að það komst í millimál á milli forseta Alþingis og útvarpsstjóra, hver skyldi bera ábyrgð á fréttaflutningnum. Ég og ýmsir aðrir hafa ekki getað fallizt á þá afstöðu, sem forsetarnir hafa tekið í þessu máli. Við teljum, að þeir hefðu átt að verða við kurteislegri áskorun útvarpsstjóra um, að Alþingi sæi um flutning fréttanna. Við teljum hreint og beint, að flutningur þingfréttanna heyri undir Alþingi og að forsetarnir eigi að láta annast hann. Enda miklu hægara fyrir Alþingi, ef einhver mistök yrðu á flutningnum, að fara fram á leiðréttingu við forsetana heldur en þurfa að fara með slíkt til útvarpsstjóra. Eins og nú standa sakir, þá er þessu máli þann veg farið, að forsetar hafa látið undan síga að verða við þeirri áskorun, sem til þeirra hefir verið beint og fjöldi þm. stendur að, en tekið þann kostinn að fara að semja á ný við útvarpsstjóra um flutning fréttanna. En sakir þess, að þeir samningar munu ekki búnir enn, og því sé ennþá hægt að kippa þessu í lag, er till. þessi fram komin. Ég verð nfl. að líta svo á, að enda þótt það hafi dregizt svo úr hömlu sem raun er á orðin, að Alþingi tæki í sínar hendur flutning þingfréttanna í útvarpið, þá sé þó ekki of seint að taka málið föstum tökum. Ennþá er sem sé nokkur tími eftir af þinginu og getur því ekki talizt of seint að samþ. till. nú, því að ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir, að strax og till. hefir verið samþ., þá skipi forsetar mann til þess að flytja fréttirnar. Í þetta á ekki að geta komið nein flokkapólitík, því að bak við þessa kröfu er vilji almennings, alveg án tillits til stjórnmálaskoðana.

Því mun nú vart í móti mælt, að árangurinn af störfum Alþingis er ekki alltaf eins mikill og skyldi og fólkið gerir ráð fyrir. Ég teldi því vel farið, ef það gæti gert almenningi einhverja sérstaka hugnun eða ánægju, og það þori ég að fullyrða, að það myndi koma fjölda fólks mjög vel, ef því væri getinn kostur á að fá daglega nákvæmar og vel fluttar fréttir af Alþingi, og að þessu miðar till. mín. Samkv. henni eiga forsetarnir að ráða mann nú þegar til þess að annast flutning þingfréttanna, og að óreyndu vil ég ekki væna þá um, að þeir vandi ekki vel til vals mannsins, þar sem þingmenn eiga líka beinlínis aðgang að þeim, ef val hans tekst miður en skyldi. Læt ég svo máli sínu lokið að sinni og vænti þess, að hv. þm. taki till. vel og samþ. hana.