19.03.1936
Sameinað þing: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (3106)

75. mál, þingfréttir í útvarpi

*Magnús Jónsson:

Það er aðeins örstutt aths. til þess að bera af mér sakir. — Ég ætla ekki að fara út í það, þótt hv. þm. N.-Þ. veiti nágranna sínum lið til þess að verja fjárdrátt af opinberu fé; þess gerist ekki þörf. Ég ætla ekki heldur að skipta mér af því, þó þeir haldi því fram, að útvarpsstjóri eigi ekkert annað að gera en heita forstjóri. En ég er hræddur um, ef hv. þm. N.-Þ. ætti sjálfur fyrirtækið, að honum mundi finnast, að forstjóri gæti eitthvert handarvik gert. Annars gæti vel komið til mála að fela landssímanum að hafa umsjón með vélum útvarpsins og öðru því, er að hinni verklegu hlið lýtur, en útvarpsráð sæi um dagskrárefni. Þá væri engin þörf fyrir útvarpsstjóra.

Ég vildi sérstaklega bera af mér þær sakir, að ég hefði skrökvað til um launakjör útvarpsstjóra. Ég bar þau saman við laun manna í ábyrgðarmiklum stöðum og get staðið við það, að þegar útvarpsstjóri var skipaður, þá teygði stj. launin eins hátt og hún treysti sér til að verja gagnvart l., þó stj. setti síðar ekki svo fáa menn á hærri laun en embættismenn í ábyrgðarmiklum stöðum. Hitt er annað mál, að nú, þegar unnið hefir verið að því þing eftir þing að lækka þessi laun, er ekki launaskráin hið rétta plagg til samanburðar í þessu efni. Hitt er staðreynd, að upphaflega var útvarpsstjóri ráðinn á hæstu launum, auk þess sem hann var látinn hafa bitling fyrir eftirlit með viðtækjaverzluninni, sem hann ekki var fær um. En síðan hann hefir misst það, er sagt, að hann hafi bætt sér það upp með því að ráða að útvarpinu sér svo nákominn starfsmann, að skoða má það sem launauppbót, svo hann hefir raunverulega hærri laun en flestir embættismenn ríkisins. Þessu vildi ég ekki láta ómótmælt.