19.03.1936
Sameinað þing: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (3109)

75. mál, þingfréttir í útvarpi

*Jörundur Brynjólfsson:

Það var minnzt á það í umr., að forsetar hefðu færzt undan að láta þingið annast um þingfréttir útvarpsins. Fóru erindi milli útvarpsins og forseta, og sé ég ekki ástæðu til að rekja þau.

En eftir að fram komu í þinginu óskir af hálfu þm. um þetta efni, ætluðum við að verða við þessum tilmælum og höfðum komið okkur saman um ákveðna tillögu. En á því strandaði þó, að ekki var hægt að leysa málið á þann hátt, sem við forsetar lögðum drög að. Og það, sem varð þess valdandi, að úr þessu gat ekki orðið, voru ekki afskipti neins þm., hvorki hv. þm. S.-Þ. eða annara.

Þetta vildi ég láta koma fram út af þeim ummælum hv. þm. V.-Sk., að það væri fyrrnefndum þm. að kenna, að samkomulag hefir ekki tekizt um að þingið hafi á hendi útvarpsfréttir af þingmálum; og vil ég vona, að hv. þm. V.-Sk. láti sér nægja þessar upplýsingar.