19.03.1936
Sameinað þing: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (3110)

75. mál, þingfréttir í útvarpi

*Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Ég hefi enga ástæðu til að segja mikið við því þófi, sem augsýnilega er haldið uppi af hv. þm. N.-Þ. og fleirum til að tefja þetta mál. Ég býst þó við, að málinu ljúki nú bráðlega þrátt fyrir það.

Gagnvart aths. hv. 1. þm. Árn. vil ég taka fram, að hann vill nú að sjálfsögðu láta þannig líta út, að það sé ekki af völdum neins sérstaks þm. eða áhrifamanna innan flokksins eða flokkanna, að málið var í raun og veru strandað. Ég hefi þó grunsemdir um þetta. En ég læt það liggja á milli hluta. Ég sé ekki neina aðra ástæðu. Og grunsemdirnar um það, að þessar ástæður virðast liggja til, hafa fengið nýjan byr í seglin við framkomu hv. þm. Þingeyinga, bæði S.-Þ. og N.-Þ. Að öðru leyti skiptir þetta ekki máli, ef nú kemst skriður á málið.

En hv. þm. N.- Þ. var að tala um það, sem hv. þm. S.-Þ. féll sárt að nefnt var á nafn hér, nefnilega að hann sé að gerast nokkuð gamall. Þetta er ekki sagt af því, að hann að öllu leyti beri þetta utan á sér, heldur eftir þessari góðu og gömlu reglu: af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Og loks af því, að ég man ekki betur en einn af áhrifamönnum í hinum hluta stjórnarflokksins hafi slegið föstu með grein — og sannað — fyrir ári síðan, að nú sé svo komið, að þessi hv. þm. sé greinilega elliær. Það kemur stundum fyrir, og fer eftir sálarfari manna, að þeir, sem eru eldri að árum, geta verið yngri að öðru leyti, og öfugt. En ég held þetta sé nægilega ljóst fyrir þá, sem heyra á mál þessa hv. þm. eða lesa það, sem hann skrifar.

Eitt atriði vildi ég skýra betur, ef hv. þm. N.Þ. hefir ekki skilið það fyllilega áður, bæði af ræðu minni og hv. 1. þm. Reykv., að þegar er verið að ráða mann til þess að gegna starfi, sem allir játa, að eigi að vera sem hlutlausust frásögn af viðkvæmu efni, sem er pólitískt starf að því leyti, að það snertir pólitísk mál, þá er það enginn síður, ef menn vilja gætnir og gegnir menn teljast, að taka einmitt þá menn, sem eru opinberir að því að vera hápólitískir, flokkdrægir stjórnmálamenn. Og menn hafa hér nokkur kennimörk, sem eru mjög áberandi: Hvort maðurinn hefir tekið virkan þátt í pólitík, hvort hann hafi boðið sig fram til þings, og hvort hann hafi verið ritstjóri pólitísks flokks. Þetta eru þrjú stór aðaleinkenni. Öll þessi störf hefir þessi maður haft með höndum og fengizt við fram til þessa tíma. Hér er valinn maður, sem, að honum ólöstuðum — ég þekki manninn ekki — er einn af pólitískustu flokksagitationsmönnunum. (Fjmrh.: Getur hv. þm. verið dómari?). Það er allt annað mál, en hæstv. ráðh. skilur það ekki. En dómari hefir yfir höfði sér miklu meira öryggi frá alþjóðarsjónarmiði heldur en menn, sem flytja fréttir í útvarp, sem geta ef til vill verið ráðnir til að flytja þær pólitískt í útvarp.

Ég endurtek, að þessi brtt. hv. þm. N.-Þ. er að öllu leyti óþörf. Og ef nokkur meining er í henni, er hún til þess eins að slá málinu á dreif og eyða því.