22.04.1936
Neðri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (3116)

130. mál, símaleynd

*forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég var ekki við í gær, þegar þeirri fyrirspurn var beint til stj. (undir umr. um frv. um ráðstafanir til varnar því, að skipum sé leiðbeint við ólöglegar fiskveiðar), hvernig því mundi vera háttað, að hlustað hefði verið á samtöl hér í bænum gegnum síma, vegna afbrota, sem framin hefðu verið í sambandi við áfengissölu. Ég veit ekki með vissu, hvernig þessi fyrirspurn hefir verið sett fram, en ég þykist vita, að það hafi verið gert eitthvað svipað því, sem komið hefir fram opinberlega í blöðum.

Út af þessari fyrirspurn þykir mér rétt að taka þetta fram, því að það hefir verið sérstaklega óskað eftir því af form. Sjálfstfl., að fyrirspurninni yrði svarað í dag í þinginu:

Ég sem dómsmrh. hefi ekki haft afskipti af þessu máli eða vitað um þessa rannsóknaraðferð sérstaklega, fyrr en mér var skýrt frá því nú fyrir stuttu, að það hefði verið gert. Hinsvegar álít ég, — og ég þarf ekki að segja, að ég álíti, það er fullkomin vissa, að lögreglan hafði ekki einu sinni heimild til að gera þetta, heldur bar henni blátt áfram skylda til þess. Menn vita það ósköp vel, að þegar lögbrot hafa verið framin, hefir lögreglustjóri sem dómari heimild til, ef rökstuddur grunur liggur fyrir, að fara inn á þau heimili, sem sá rökstuddi grunur liggur á, og láta leita á þeim heimilum. Heimilisfriðurinn er hinn ríkasti réttur, sem borgarar þjóðfélagsins eiga, og stendur undir sérstakri vernd löggjafans. En jafnvel þessi réttur verður að víkja, þegar rökstuddur grunur um lögbrot liggur á heimilinu. Þá verður lögreglan að rjúfa heimilisfriðinn; annars brýtur hún skyldu sína. Á þennan hátt verður rannsóknardómari oft að svipta heimilisfriðnum burt, ganga inn á heimilin og láta leita þar eftir geðþótta. Alveg sama rétt hefir lögreglan viðvíkjandi bréfum. Ef rökstuddur grunur liggur á, að bréfaviðskipti séu notuð til þess að fremja lögbrot, er lögreglustjóra heimilt að úrskurða, að opna megi bréf, og meira að segja er skylt að gera það. Og ef einhver önnur tæki þjóðfélagsins, t. d. síminn, er notaður til þess að fremja lögbrot, þá er lögreglunni ekki einu sinni rétt, heldur skylt að láta hlusta í símann, því að það er ekkert það tæki til í þjóðfélaginu, sem nota á til afbrota. Þjóðfélagið hefir ekki sett upp símann til þess að hann yrði notaður til að brjóta lög þjóðfélagsins. Það hefir ekki stofnað heimilisfriðinn til þess að lög yrðu brotin í skjóli hans. Honum er umsvifalaust svipt burt, ef rökstuddur grunur um lögbrot liggur á heimilinu, og ef síminn er notaður til þess að fremja lögbrot, hvers vegna skyldi hann eiga að vera helgari en sjálfur heimilisfriðurinn?

Það er reynt að veitast að lögreglunni fyrir það, að hún hefir gert þessa skyldu sína. Það er reynt að láta líta svo út, að verið sé að hlusta almennt á samtöl manna í bænum. Það hefir verið kveðinn upp úrskurður um, að hlustað skuli á nokkur númer, sem rökstuddur grunur liggur á um lögbrot. Á þessi ákveðnu númer hefir verið hlustað, en önnur ekki, og það er vitanlegt, að það er ekki hægt að hlusta á samtöl manna yfirleitt. Ég veit ekki, hvort þessi númer eru 4, 5 eða 6, og vitanlega er réttur lögreglunnar eingöngu takmarkaður við þessi númer, sem rökstuddur grunur hvílir á, alveg eins og heimild lögreglunnar til að leita í húsum er bundinn því skilyrði, að gefinn hafi verið úrskurður um, að húsrannsókn skuli gerð, og sá úrskurður byggður á rökstuddum grun um lögbrot. En hafi lögreglan farið að hlusta á önnur númer en þau, sem lögreglustjóri hafði heimilað að opna, þá er að því að finna við lögregluna. En ég veit ekki til, að það hafi verið gert.

Það væri hinsvegar dálítið þægilegt fyrir afbrotamennina, ef þeir ættu að hafa algert friðland í símanum, eins og virðist ætti að vera eftir öllu því moldviðri að dæma, sem þyrlað hefir verið upp í sambandi við þetta mál. Hugsið ykkur það, ef afbrotamenn ættu að mega óhræddir nota símann til hverskonar lögbrota, og lögreglan ætti enga heimild að hafa til að hlusta í símann, hversu alvarleg afbrot sem um væri að ræða. Það væri ákaflega þægilegt tæki, ef það ætti að vera þannig verndað gegn lögreglunni fyrir lögbrjótana. En til þess hefir aldrei verið ætlazt. Lögreglan hefir, þegar rökstuddur grunur liggur fyrir, fulla heimild til að opna númerin, alveg eins og hún hefir heimild til að opna bréf og fara inn á sjálf heimilin og rjúfa heimilisfriðinn, ef rökstuddur grunur liggur fyrir. (GSv: Hver eru takmörkin fyrir því?). Það var gott, að þetta innskot kom. Þessi dómari veit vel, að þetta hefir verið framkvæmt innan þeirra takmarka, að heimilisfriðurinn skuli rofinn, þegar rökstuddur grunur liggur fyrir um afbrot, sem þyngri refsing liggur við en sektir eða einfalt fangelsi. Og fyrst rjúfa má heimilisfriðinn í slíkum tilfellum, þá má vitanlega gera það, sem minna er, eins og að hlusta í síma. Lögreglan hefir því hér eingöngu gert það, sem henni var heimilt og skylt að gera.