22.04.1936
Neðri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (3117)

130. mál, símaleynd

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Ég get þakkað hæstv. forsrh. fyrir, að hann hefir viljað upplýsa þetta nokkuð, sem ég spurðist fyrir um í gær. Hann má ekki orða það svo, fyrst hann var ekki hér í gær, að ég hafi verið að þyrla upp ásökunarmoldviðri um lögregluna. (Forsrh.: Því var alls ekki beint til þessa hv. þm.). Ég gerði aðeins fyrirspurn.

Mér sýnist ástæðulaust að láta þetta ganga í taugakerfi sitt, a. m. k. svona í byrjun, og ég mun reyna að verjast því, að það geri það hjá mér. Samt er það ýmislegt, sem ég hefi við svar hæstv. ráðh, að athuga.

Ég heyrði, að hæstv. ráðh. sagði, að hann hefði ekki haft afskipti af þessu máli og ekki vitað um það fyrr en honum var skýrt frá því nú fyrir nokkrum dögum. Hann nefndi ekki beint, hvort hann átti eingöngu við þau atvik, sem komið hafa fyrir þessa dagana. En ég veit ekki, hvort átt hefir að skoða þessa yfirlýsingu hæstv. ráðh. svo, að hún ætti líka að ná til þeirra hlustana, sem gerðar hafa verið í bæjarsímanum áður en þetta kom fyrir. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort hann hafi ekki áður gefið fyrirskipanir um, að hlustað skyldi vera á samtöl borgaranna.

Ég átti einu sinni tal við Morgunblaðið um almennt og í sjálfu sér ómerkilegt mál, og þegar við höfðum átt tal saman um stund, heyrði ég, að komið var inn á línuna, og olli það nokkurri truflun. Ég kunni þessu illa, að aðrir væru að liggja á hleri, og hafði álitið, að sjálfvirka stöðin útilokaði, að það væri hægt. Ég hringdi þess vegna samstundis til bæjarsímastjóra, en hann var ekki við, svo ég hringdi til landssímastjóra og spurði hann um, hvort þetta gæti átt sér stað. Því svaraði hann neitandi og sagði, að þar væri ekkert að óttast, því slíkt væri tekniskt ekki hægt. En landssímastjóri spurði, hvort þetta gæti ekki stafað frá miðstöð í húsinu, sem ég talaði við. Um það gat ég ekkert sagt með vissu, en hélt, að svo hlyti að vera, þar sem sjálfur landssímastjórinn fullyrti, að aðrir möguleikar væru útilokaðir. En nú upplýsist, að það hefir verið rangt, sem landssímastjóri sagði um þetta.

Þetta er í sjálfu sér stórt og merkilegt mál, ef bæjarbúar geta ekki verið öruggir um að tala um sín einkamál í símann. Mér skilst, að hæstv. ráðh., svari þessu á þann veg, að svo sé venjulega, og svo eigi það að vera, að síminn veiti fullt öryggi. En út af þessu mun þó geta brugðið, þegar stjórnarvöldin vilja láta hlusta eftir því, sem talað er í vissum númerum; þá er bara gefinn út úrskurður fyrir þessi númer, en það nær ekki til allra, segir hæstv. ráðh.

Þá lagði hæstv. ráðh. áherzlu á það, að það væri ekki aðeins réttur, heldur einnig skylda dómsvaldsins að brjóta þá friðhelgi, sem Reykvíkingar og Hafnfirðingar hafa álitið, að fælist í fullkominni þagnarskyldu og öryggi um, að síminn væri algerlega lokaður, og því óhætt að tala þar um hvaða einkamál sem væri. Þá mætti gera það að sérstöku umræðuefni, eftir hvaða heimild og eftir hvaða skipun þetta hefir verið gert. Mér finnst það a. m. k. vafasamt af hæstv. ráðh. að bera saman rétt lögreglunnar til þess að fara til rannsóknar inn á heimili að óvörum, þar sem um sterkan grun er að ræða. En hér er sá munur á, að sú rannsókn er opinber, að hlutaðeigendum viðstöddum, en hlustunin er njósnarstarfsemi hins opinbera. Menn eiga því alltaf yfir höfði sér, að á þá sé hlustað alveg eftir geðþótta valdhafanna. Ég veit, að hæstv. ráðh. sér, að á þessu er mikill munur. Hæstv. ráðh. fór nú talsvert vítt og sagði í þessu sambandi, að þetta væri svipað og þegar bréf væru opnuð sem sönnunargögn í máli. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh.: Álítur hann, að heimilt sé að opna bréf á pósthúsinu og í vörzlum póststjórnarinnar? Má nú landsfólkið eiga von á því, að öll bréf, sem koma hér á pósthúsið, verði opnuð og lesin? Ég vil segja, að öryggi borgaranna fer að verða lítið, ef valdhafarnir leyfa sér að gera það.

Hæstv. ráðh. var að bera saman að gera húsrannsókn eftir úrskurði við að hlera í síma og opna bréf. En ég held, að hæstv. ráðh. hafi gengið of vítt í þessu efni og að hann verði að sætta sig við að líta öðrum réttsýnni augum á þetta mál. Og það er einkennilegt, að hæstv. ráðh. sýnist líta öðrum augum á frv. það, sem fyrir liggur og tilefni gaf til þessarar fyrirspurnar. Ef enginn vafi er á, að til sé heimild fyrir að skoða skeyti, sem fara milli skipa og lands, þá þarf ekki um það önnur lög en þau, sem nú eru í gildi.

Þá var það skrítin setning, sem hæstv. ráðh. sagði áðan í ræðu sinni: að þjóðfélagið hefði ekki stofnað heimilisfriðinn til verndar lögbrotum. Hverjum skyldi detta slíkt í hug? En hefir þjóðfélagið stofnað heimilisfriðinn til þess að hann sé brotinn eftir geðþótta óhlutvandra manna? Ég segi nei. Það á ekki að líðast, að það sé gert eftir geðþótta þessa hæstv. ráðh. eða annara. Vitanlega er ekki hægt að hlusta almennt, en er takmarkað við 4–5 nr., eftir því sem úrskurður fellur í hvert sinn. Þá vildi ég spyrja, hvort hlustað hafi verið aðeins þegar þessi vissu nr. hringdu, eða einnig þegar hringt var á þau. Hafi svo verið, er þetta orðið nokkuð víðtækt.

Þó ég játi með hæstv. ráðh., að ekki eigi að nota símann til lögbrota, þá gefur það ríkisvaldinu ekki nokkurn rétt til þess að fara með þá stofnun eins og eigið fyrirtæki, algerlega eftir eigin geðþótta ríkisstj. á hverjum tíma. Ég held, að þetta mál sé fullkomlega þess vert, að það komi greinilega í ljós hér í hv. d. við þetta tækifæri, hvern ríkisstj. álítur rétt sinn, og hvaða takmarkanir hún vill viðurkenna fyrir því að ráðast á heimilisfriðinn. Þetta er að því leyti verra en húsrannsókn, að menn vita þó, hvenær hún fer fram, og hún er ekki framkvæmd nema einu sinni, en þetta eiga menn alltaf yfir höfði sér. Öryggi manna um símann er því algerlega að engu orðið, nema hæstv. ráðh. gefi skilyrðislausu yfirlýsingu um, að hann viðurkenni það skyldu sína gagnvart símanum að koma í veg fyrir, að annað eins geti komið fyrir aftur.

Mig langar svo til að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh., hvort ekki hafi komið fyrir áður, að síminn hafi á þennan hátt verið notaður af ríkisstj., og ef svo hefir verið, hvort þá hafi alltaf verið felldur úrskurður um það áður, hvaða nr. ætti að hlusta. Ég veit, að hæstv. ráðh. viðurkennir, að þetta er mikilsvert atriði, bæði fyrir borgarana og fyrirtækið. Ef ekki er gætt þeirrar skyldu af lögreglustjóra og ráðh., er það óþolandi fyrir borgarana og til niðurdreps fyrir fyrirtækið. — Að síðustu vildi ég spyrja hæstv. ráðh., hvort þetta hafi verið gert áður og með hverjum hætti, og hvort úrskurður hafi þá verið felldur áður í hvert skipti.