22.04.1936
Neðri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (3118)

130. mál, símaleynd

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hv. fyrirspyrjandi talaði um, að bezt væri að ræða málið rólega. En það er nú sannast að segja rétt á takmörkum, að hægt sé að taka því rólega, þegar ekki er heil brú í því, sem um er spurt, og varla er hægt að skilja, hvað við er átt, þegar algerlega er blandað saman dómsvaldi og ráðherravaldi. Hér er öllum fyrirspurnum beint til mín, en eins og ég tók fram í tilefni af því, sem komið var fram í blöðum, verða menn að skilja það, að hér er það dómsvaldið, sem ræður, en ekki ríkisstj. Hún getur hvorki fyrirskipað húsrannsókn eða hlustun í síma, heldur er sú heimild í höndum dómsvaldsins, ef það hefir rökstuddan grun um, að um lögbrot sé að ræða. Í þessu liggur trygging þess öryggis, sem hv. 3. þm. Reykv. var að tala um. Öryggið er því til staðar fyrir hvern einasta mann, ef hann er löghlýðinn. Hér er því verið að tala máli lögbrjótanna, vegna þess að allir aðrir eru öruggir. Hér hefir verið spurt um, hvort hlustunin hafi verið takmörkuð við 4 eða 5 nr. Þessu hefi ég ekki öðru að svara en því, að ég veit, að lögreglustjórinn í Reykjavík hefir ekki farið út fyrir það valdsvið, sem l. veita honum, og gert annað en það, sem honum var skylt. — Ég get látið mér í léttu rúmi liggja tal hv. þm. um, hver hefði skapað heimilisfriðinn. Ég hygg, að það hafi þjóðfélagið gert með ýmsum þeim l., sem það hefir sett.

Þá er spurt um, hvort ríkisvaldið hafi fyrirskipað að hlusta á samtölin. Ég hefi áður sagt, að það er dómsvaldið, sem úrskurðar um það, en ekki ríkisstj. Ég hefi einu sinni lagt svo fyrir að taka afrit af skeyti, samkv. skýringu fyrrv. símamálastjóra um, að það væri heimilt, þó það væri ekki tekið sérstaklega fram í l. Síðan hefi ég leitað umsagnar núv. símamálastjóra, og hann telur, að ekki sé heimilt að skoða skeyti án úrskurðar. En vegna þess að í þetta skipti lágu fyrir nálega fullgildar sannanir, hirti ég ekki um að fá úrskurð lögreglustjóra, og samþ. símamálastjóri, að svo mætti vera í það sinn, en tók fram, að annars mundi hann ekki heimila það nema eftir úrskurði. En fyrrv. símamálastjóri, sem andstæðingar stj. hafa verið að vitna til, taldi tvímælalaust heimilt að skoða skeytin án úrskurðar. Mönnum kemur það þess vegna dálítið undarlega fyrir, að nú skuli vera rokið upp, þó lögreglan hlusti í 4 eða 5 nr. eftir úrskurði, þar sem vitað er, að áður höfðu menn síma, sem alltaf var hægt að hlusta í. Síminn er því stórum betur verndaður en áður. Það er beinlínis til verndar borgurunum, að lögreglustjóra sé heimilt að nota símann, ef hann hefir rökstuddan grun um, að framin séu lögbrot með aðstoð símans, en aðeins er eftir að ná fullum sönnunum. Það er þetta, sem um er deilt og ekki má drepa á dreif, hvort ekki sé réttmætt, að lögreglustjóri hafi heimild til þess að nota símann til að ljósta upp lögbrotum, þegar fyrir liggur rökstuddur grunur. Menn verða að gera upp við sig, hvort þeir telja rétt, að skilyrðislaust sé hægt að nota símann til lögbrota.

Ég veit um aðeins eitt, sem erlendis er deilt um, hvort eigi að vera hulið fyrir lögreglunni, og það eru skriftamál manna, en þau munu vera eina undantekningin. En sími og bréf eru ekki svo friðhelg í nokkru landi, að ekki megi nota þau til að koma upp um afbrotamenn. En mér kemur það einkennilega fyrir, ef nokkur heldur því fram hér á hv. Alþ., að lögreglan eigi ekki að hafa heimild til að rannsaka þá glæpi, sem hún hefir rökstuddan grun um, á hvern þann hátt, sem öruggast er, að þeir upplýsist. Og eftir því, sem ég veit bezt, hafði lögreglan svo sterkan rökstuddan grun um óleyfilega vínsölu, að ég tel úrskurðinn um opnun símans fyllilega réttmætan. Þess vegna álít ég, að það liggi ljóst fyrir, að lögreglan hafi gert rétt, og að allir góðir borgarar hljóti að viðurkenna, að hún hafi aðeins gert það, sem henni var ekki aðeins heimilt, heldur skylt að gera. Tryggingin fyrir því, að úrskurðurinn sé hlutlaus, er sú, að hann er kveðinn upp af dómaranum eftir rökstuddum grun. En ef ekki er hægt að trúa úrskurði um það, hvenær á að opna síma og hlusta, er þá nokkuð fremur trygging fyrir, hvenær úrskurðað er, að senda lögregluþjóna til þess að skoða á heimilunum? Allt verður þetta að vera byggt á því, að úrskurðirnir séu kveðnir upp eftir beztu samvizku og að dómsvaldið geri yfirleitt rétt. Hér hefir verið kveðinn upp úrskurður, sem full lögfræðileg heimild er fyrir, og mér kemur því á óvart sú tortryggni, sem hér verður vart gagnvart lögreglu og dómara, því ég veit ekki til, að sá maður, sem fer með dómsvaldið í Reykjavík, sé tortryggður um hlutdrægni. Þá má minnast á, að ég hygg, að dæmi séu til þess, að áður en þessi ríkisstj. tók við hafi verið hlustað á nr., en sjálfsagt hefir þá verið kveðinn upp úrskurður. Enda veit ég ekki til, að það sé nokkur ágreiningur um, að lögreglan hafi heimild til að opna nr. og hlusta, til þess að sanna rökstuddan grun um glæpsamlegt athæfi. Vilja svo ekki þeir hv. þm., sem tala hér á eftir, svara þeirri spurningu: á síminn að vera algerlega lokaður í slíkum tilfellum? Það er aðalatriðið, sem um er deilt.