22.04.1936
Neðri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (3120)

130. mál, símaleynd

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég get svarað þessu fremur stutt. Skal ég taka niðurstöðurnar af því, sem hv. þm. sagði.

Hann minntist á það, án þess ég fari frekar út í það, að ég hefði átt bifreiðastöð hér í bænum. Hann er hér með sögu úr „Stormi“, svo þokkaleg og geðsleg sem hún var, og mun ég hvorki blikna né blána, þó að hann komi hér með sögur úr „Stormi“. Hv. þm. segir jafnframt, að síminn eigi að vera jafnrétthár og heimilið, en hann sé það ekki, ef úrskurðað sé að hlusta á númer einstakra manna og þar með tekin samtöl, sem koma frá saklausum mönnum.

Það má segja, að það eru einstakir menn, sem síma til bifreiðastöðvanna til þess að panta sér bifreið, og þá má færa það fram, að heimilin séu betur sett en símanúmerin. En veit þessi hv. þm. ekki það, að þegar skoðað er á heimilum, þegar friðhelgi heimilisins er rofin, þegar skjöl eru skoðuð, þá eru kannske lesin bréf frá tugum manna, sem ekki nokkurn skapaðan hlut koma við því afbroti, sem framið hefir verið? Það eru lesin óteljandi skjöl og bréf til þess að rannsaka, hvort þau hafa ekki inni að halda eitthvað áhrærandi það afbrot, sem verið er að rannsaka. Öðruvísi er ekki hægt að gera það. T. d. þegar kveðinn var upp úrskurður um að leita í togara í Grimsby, þá var tekið og rannsakað hvert bréf hvers farþega, m. ö. o. óteljandi bréf saklausra manna voru rannsökuð, alveg eins og þegar hlustað er í síma, að þá verður ekki komizt hjá að hlusta á saklausa menn, þegar hlustað er í númer, sem liggja undir grun. En þetta byggist á því, að dómarinn fari ekki að flíka því, sem hann hefir séð, og alveg eins er það viðvíkjandi símanum. Þess vegna hrynur þessi röksemd gersamlega hjá hv. þm. Og það er miklu fleira á heimilum, eins og menn geta sett sig inn í, sem rannsakað er, sem snertir ekki afbrotið, heldur en það, sem hlustað er á í gegnum síma. En þrátt fyrir þetta hikar löggjafinn ekki við að leyfa að rjúfa heimilisfriðinn, ef lögbrot eru framin, og þá því fremur að rjúfa þögn símans, ef hann er notaður til lögbrota. Þessu þorði hv. þm. ekki að neita, og því hefir enginn þorað að neita. Aðalatriðið var að fá það hér fram, og menn hafa ekki viljað neita því. Það væri líka einkennilegt, ef einhver héldi því fram, að ekki mætti rjúfa friðhelgi símans á alveg sama hátt og má rjúfa friðhelgi heimilisins, enda hefir það unnizt á við þessar umr., að menn hafa ekki viljað halda því fram, að lögreglunni sé þetta ekki heimilt.

Þá er annað atriði, sem ég vil benda á í þessu sambandi. Hv. þm. G.-K. heldur því fram nú, að það sé mjög vafasamt, að heimilt sé í þessu tilfelli, þegar lögreglubrot eru framin, að hlusta á símtöl. En menn taka eftir því, að öll vörn, bókstaflega öll vörn, sem fram hefir verið færð fyrir því, að ekki þyrfti að samþ. l. um að líta eftir skeytum til togara, hefir byggzt á því, að stj. hafi heimild til að skoða þessi skeyti samkv. úrskurði landssímastjóra, þegar rökstuddur grunur lægi fyrir, og þá heimild mætti alltaf nota, og því hefir aldrei verið mótmælt, að það mætti gera, og á þennan hátt mátti þá líka opna símann, þegar rökstuddur grunur liggur fyrir. En við höfum haldið fram, að þetta væri ekki alltaf hægt, því að rökstuddur grunur lægi ekki alltaf fyrir, þegar um skeytasendingar væri að ræða. Þetta stangast því á hjá þeim, því að nú má ekki hlusta, þegar framin eru lögreglubrot, en þegar landhelgislöggjöfin er brotin, þá segja þeir, að sé tvímælalaust heimilt samkv. úrskurði landssímastjóra að hlusta þar á samtöl og skoða þau skeyti, sem send eru á milli skipa og lands, þó að þau fjalli um óteljandi margt annað en lögbrot. Þau geta verið frá skipverjum til vandamanna þeirra í landi. Þessi skeyti segja þeir að megi skoða. En þegar um brot á bannlögunum er að ræða, þá álíta þeir símann svo heilagan, að ekki megi opna hann til þess að koma upp um lögbrjótana. Hvaða samræmi er í þessu? Hér er sínu haldið fram í hvert skipti, eftir því sem í það og það sinn passar þeim málstað, sem þessum hv. andstæðingum þóknast að verja. En ef heimild er til að skoða hvert skeyti frá togurunum án úrskurðar, eins og andstæðingarnir vilja halda fram, hvers vegna er þá ekki heimilt að hlusta í símann, þegar upplýst er um brot eða rökstuddur grunur liggur fyrir um það? Þetta er einkennileg röksemdafærsla. Þetta er grautargerð hjá andstæðingunum.

En viðvíkjandi því atriði, sem hv. þm. G.-K. tók síðast fram, að það væri skylda landssímastjóra að sjá um, að síminn væri ekki notaður á þann hátt, sem lögreglustjóri hefir látið gera, til þess að upplýsa víðtæk lögbrotamál, þá er það sprottið af sömu grautargerð og hitt hjá hv. þm. — Það er með öllu óviðeigandi að veitast að landssímastjóra fyrir það, að hann hefir hlýtt úrskurði lögreglustjóra. Samkv. stjórnarskránni er það skylt. Það er beinlínis tekið fram í einni grein stjskr., að úrskurðum yfirvalda beri að hlýða. Hv. þm. G.-K. veit það, að þó hægt sé að áfrýja úrskurði dómara, þá hindrar það ekki framkvæmd hans.

Ef á þann hátt yrði hægt að fresta framkvæmd úrskurða, hvaða áhrif mundi það hafa t. d. hér í Rvík? Þá mundi, þegar húsrannsókn ætti að fara fram, húsráðandi geta sagt: Ég áfrýja úrskurðinum. — Ætti svo að bíða eftir dómi í málinu, þá gæti það tekið allt að einu ári, og yrði húsrannsóknin þá auðvitað þýðingarlaus eftir þann tíma. Viðvíkjandi þessu gildir sama regla og um húsrannsóknir, að það er ekki hægt að fresta framkvæmd úrskurðar með áfrýjun, því það mundi hafa þær afleiðingar, að rannsóknin yrði einskis virði. Þess vegna var ekki fært fyrir landssímastjóra að fresta framkvæmd úrskurðarins, þótt hann hefði áfrýjað honum. (ÓTh: Um leið og búið er að áfrýja úrskurðinum er hann orðinn að blaðamáli, og þá vita allir um hann). Þetta er, eins og hv. þm. sér, ekkert nema tilraun til að klóra í bakkann, og það léleg tilraun. — Ef t. d. úrskurður er kveðinn upp kl. 5 í dag, og landssímastjóri segist áfrýja honum, þá fer rannsóknin eigi að síður fram í dag. Það, sem hv. þm. er hér að deila á landssímastjóra fyrir, er það, að hann hefir gert það, sem honum bar skylda til, að hlýða úrskurði lögreglustjórans í Rvík. Það hefir hann gert, og það bar honum að gera, því annað hefði verið brot á skyldu.