22.04.1936
Neðri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (3126)

130. mál, símaleynd

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hv. þm. G.-K. var orðinn nokkuð heitur. Mér virtist nú ræða hans beinast aðallega til atvmrh. En það, sem ég þarf að svara, er aðallega það, sem hann sagði um, að átt hefði að áfrýja málinu. Það liggur í augum uppi, að ef það hefði verið gert, þá hefði það eyðilagt gersamlega rannsókn lögreglunnar í áfengismálinu. Það er vitanlega meining hv. þm. G.-K., að ef slíkum úrskurði eigi að áfrýja, þá eigi að fresta því verki, sem úrskurðurinn ætlast til, að gert verði. Það er vitanlega hans skoðun, og það kom greinilega fram í hans fyrstu ræðu, þó að hann nú reyni að klóra í bakkann með því að segja, að þetta mundi hafa komizt til vitneskju þeirra, sem átti að hlusta á. Ef landssímastjóri ekki áfrýjaði úrskurðinum, gat það vel svo farið, að þetta kæmist ekki til vitundar þeirra, sem átti að framkvæma hlustunina hjá, fyrr en eftir nokkra daga. Og eftir því, sem ég hefi aflað mér upplýsinga um, þá komst upp um nær alla bílstjórana þegar fyrstu kvöldin. Ef landssímastjóri áfrýjaði úrskurðinum, þá gat hann alveg eins símað til bílstjóranna eða sett auglýsingu í útvarpið um það, að nú ætlaði hann að fara að framkvæma hlustunina. Þess vegna er það það, sem skiptir máli í þessu efni, að þetta kæmist ekki til vitundar bílstjóranna, en ekki sjálf áfrýjunin út af fyrir sig. Það, sem um er deilt, er þess vegna það, hvort landssímastjóri hafi átt að leika það hlutverk að aðvara lögbrjótana eða ekki. — Ég skal svo ekki fara lengra út í þessi ummæli hv. þm. G.-K. En ég ætla aðeins að minnast á það, þegar verið er að hneykslast á því, að framkvæmd er hlustun í síma samkv. dómsúrskurði, að fyrir nokkrum árum var hér á ferðinni afbrotamál, hið svokallaða uppþotsmál Ólafs Friðrikssonar. Vill ekki hv. þm. G.-K. upplýsa, hver það var, sem lét hlusta þá? (ÓTh: Ég hefi ekki heyrt, að það hafi verið gert). Það er bezt, að það komi fram í þessu sambandi, að það var í stjórnartíð Jóns Magnússonar, sem þessi regla var tekin upp, svo að það er sannarlega ekkert nýmæli, sem hér hefir átt sér stað. Viðvíkjandi því, hvort þetta sé heimilt eða ekki, en um það hefir verið mikið deilt, þá hefir það komið fram, að landsímastjóri hefir haldið þeirri reglu, sem hv. þm. G.-K. virðist vilja fallast á, að í landráðamálum og glæpamálum eigi að vera hægt að úrskurða hlustun, og svo ennfremur í víðtækum lögreglumálum. En heldur hv. þm. því fram, að þetta hafi ekki verið víðtækt lögreglumál? Það hefir verið á allra vitorði hér í bæ, að bílstjórarnir seldu áfengi. Það er hvorki meira né minna en það, að lögreglumálið er ekki umfangsminna en það, að það er á allra vitorði, að bílstjórar selji áfengi, samkvæmt yfirlýsingu hv. 8. landsk. Hvað fellur þá undir þessa reglu, sem landssímastjóri vill fara eftir og hv. þm. G.-K. fellst á, að væri rétt? Þá er eðlilega deilan um það, hvort hér sé um viðtækt lögreglumál að ræða, þegar allar nema 2 bílstöðvarnar eru sakaðar um að selja áfengi. (GÞ: Hvernig er bréf landssímastjóra?) Hv. 8. landsk. lagði ágæt rök upp í hendurnar á mér, þegar hann sagði, að síminn væri einn þáttur heimilanna og heyrði því undir heimilisfriðinn. Það er rétt, að síminn er einn þáttur. en aðeins einn þáttur heimilisins. Og ef sú regla á að gilda, að það sé hægt, þegar rökstuddur grunur liggur fyrir um að framið hafi verið lögbrot, að rjúfa heimilisfriðinn, hvers vegna ætti þá að taka þennan eina þátt undan? Ég hefi fengizt við lögreglurannsóknir í 9 ár og ég hefi alltaf vitað, að dómarar fylgdu þeirri reglu, þó hún hafi ekki verið lögfest, að kveða ekki upp úrskurð um húsleit nema svo standi á, að þung refsing liggi við því broti, sem grunur liggur á að framið hafi verið. Hv. þm. veit vel, að við brotum á áfengislöggjöfinni liggur fangelsi, og hann veit það líka, hv. þm., að árlega eru kveðnir upp fleiri tugir af húsleitarúrskurðum. Það er um þessi mál eins og um heimilisfriðinn, að það verður að treysta því, að dómarinn sé hlutlaus. Og ég álít, að sú árás, sem gerð hefir verið á lögreglustjórann í þessu máli, sé alveg ástæðulaus. Lögreglan hafði heimild til að gera þetta, og þegar hún hafði þá vitneskju, sem 8. landsk. bar fram, að allir bæjarbúar hefðu, þá bar henni að beita þeim ráðum, sem hún hafði heimild til, til þess að koma þessu upp.