22.04.1936
Neðri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (3127)

130. mál, símaleynd

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. þm. G.-K. taldi, að annaðhvort ég eða landssímastjóri hlytum að segja ósatt viðvíkjandi bílstjóraverkfallinu. Þetta er algerlega misskilningur. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni, þá er mér ekki kunnugt um, hvaða ráðstafanir lögreglustjóri hefir gert til þess að halda uppi reglu í bænum meðan á verkfallinu stóð. Hann fékk engar fyrirskipanir frá mér því viðvíkjandi. Hv. þm. spurði, hvaða númer hefðu verið hlustuð. Mér er ekki kunnugt um það, og þó ég vissi það, þá mundi ég ekki gefa það upp. En aðalatriði þessa máls er það, að það er ekkert, sem fram hefir komið, sem bendir til þess, að sá trúnaður, sem í þessum málum á að vera, hafi verið brotinn. Mér er ekki kunnugt um, að nein afbrot hafi komið fram í þessu, hvorki fyrr né síðar. Og ég vil bæta því við, að mér er alveg óskiljanleg sú afstaða hv. þm., ef þeir hugsa sér, að sú helgi eigi að vera á símanum, að ekki megi á löglegan hátt kveða upp úrskurð, þegar þess er nauðsyn, um að þetta skuli framkvæmt. Það er nákvæmlega hliðstætt því, að það getur oft verið nauðsynlegt að gera húsrannsókn eða bréfaskoðun. Hitt væri að skapa fyrir afbrotamenn öruggt skjól, sem þeir gætu svo notað sér til að reka sína afbrotastarfsemi. Hitt má náttúrlega deila um, hvort ástæða sé til þess á hverjum tíma að kveða upp slíkan úrskurð, sem hér er um að ræða, hvort málavextir hafi verið slíkir, að þetta hafi verið nauðsyn. (PHalld: Það er verið að deila um það). Nei, það er verið að tala um þetta sem svívirðilega njósnarstarfsemi og að ráðh. séu að hlaupa í símann og hlusta. Ég skal svo víkja að þessu bréfi landssímastjóra. Hann sagði við mig, að hann teldi þetta nýmæli, þó að það væri tekið upp á þessum vetri, svo það stangast ekki á neinn hátt. Og ég skal geta hér annars, sem ég hefi ekki eftir landssímastjóra, að það er talið, að af fyrrv. stjórnum hafi verið hlustað, jafnvel án úrskurðar. Árið 1921 ku hafa verið hlustað í máli Ólafs Friðrikssonar. (ÓTh: Eru það ekki órökstuddar kjaftasögur?). Hv. þm. getur spurt hvaða Rvíking, sem fylgdist með í því máli. (PHalld: Það var líka merkilegt sóttvarnarmál). Ég sé ekki, að það sé fleira, sem ég hefi ástæðu til að taka fram í þessu sambandi, en mér finnst að málflutningur, sem notaður hefir verið við þetta mál vera ákaflega óviðeigandi. Það liggur ekki nokkur skapaður hlutur fyrir um það, að þessi misbeiting á símanum hafi farið fram. Það, sem um er að ræða, er það, hvort símahelgin á að vera svo mikil, að afbrotamenn geti óáreittir farið með hverskonar glæpsamlegt athæfi gegnum hann og treyst honum undir öllum kringumstæðum. Ég get ekki gert að því, að mig grunar, að þetta mál, sem hér er fram komið, sé komið fram af gremju vissra manna yfir þeirri nýju löggjöf, sem á döfinni er um varnir gegn landhelgisveiðum, gremju þeirra manna, sem þó ekki þora að beita sér móti þessari sjálfsögðu löggjöf, en blása svo þetta mál upp í nokkurskonar hefndarskyni. (PHalld: Eru það þá landhelgisbrjótar, sem standa fyrir þessu?). Nei, ég sagði, að það væru menn, sem kynnu þessari löggjöf illa.