22.04.1936
Neðri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (3134)

130. mál, símaleynd

*Ólafur Thors:

Ég vil bara að lokum leggja áherzlu á það, sem hér er upplýst, að þessar njósnir við símann hafa átt sér stað oftar heldur en í þetta skipti. Og ég legg áherzlu á það, að hæstv. atvmrh. hefir viðurkennt þetta, enda þótt landssímastjóri í bréfi til ráðh. segði, að þetta sé nú í fyrsta sinn. (Atvmrh.: Ég sagði það alls ekki). Má ég lesa það upp úr bréfinu? — Það hljóðar svona: „Með því að mér var ljóst, að hér er um nýmæli að ræða.“ Það er um nýmæli að ræða, sem gæti skapað fordæmi. Þann 11. apríl er um nýmæli að ræða. Í desemberlok síðastl. kom þetta fyrir áður. Og svo á þetta í vor að skapa fordæmið! Þetta bréf gefur tilefni til að halda, að hér sé um skipulagsbundinn ósóma að ræða, — tilefni til að halda, að það sé skrifað til þess að vera í dag skjól fyrir það athæfi, sem í dag er opinbert. En þeir vöruðu sig ekki á, að fleiri vissu um athæfið en áður var komið fram.

Það er nú yfirlýst í þessum umr. af hæstv. dómsmrh., að hann telji fullkomlega eins vel koma til greina að skoða bréfin á pósthúsinu. Í slíku þjóðfélagi ríkir ekkert öryggi. Það er alveg gersamlega óþolandi að vera ofurseldur slíkum ránum að ástæðulausu. Ég viðurkenni á engan hátt, að afbrotið, sem liggur fyrir, þ. e. a. s. að taka við af áfengisverzluninni og selja brennivín, sé það mikið afbrot, að það réttlæti það að rjúfa alla þessa friðhelgi. Það er hverfandi lítið hjá hinu brotinu, sem upplýst er, nefnilega því, að setja njósnir á öldungis saklausa menn í sambandi við bílaverkfallið, þar sem fyrir lágu engar sannanir né rannsóknir.

Ég segi það sem mitt síðasta orð í þessu máli, að það væri viðeigandi, að menn hættu að nota bæjarsímann, ef ekki fæst yfirlýst fullkomlega og óyggjandi, að slíkur ósómi muni ekki endurtaka sig. Og að mínu áliti nægir ekki yfirlýsing, — það þarf að koma fram önnur enn meiri trygging.