25.04.1936
Neðri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (3138)

130. mál, símaleynd

*Sigurður Kristjánsson:

Ég álít þetta mál eitt hið stærsta mál, sem komið hefir fyrir þingið, og fullkomið hneykslismál. Ætli hæstv. forseti því að beita valdi sínu til þess að hindra umr. um það, þá býst ég ekki við, að hann geri þjóð sinni mikinn greiða, því að Alþingi er sá vettvangur, sem mál þetta á að ræðast á og úrskurðast. Það er ekki svo lítið mál eða lítilfjörlegt, að hægt sé að blása það burtu með ofbeldi einu. A. m. k. tel ég mig þurfa að fá greinabetri upplýsingar um það en hið loðna svar hæstv. atvmrh. annars vildi ég beina því til þessa hæstv. ráðh., að hann vildi gefa skýringar á þeim ákvæðum, sem hann hefir sjálfur sett inn í lögin um eftirlit með ríkisstofnunum. Gefa t. d. skýringu á því, hvaða skilning hann hefir á þessu ákvæði laganna, að hvert ráð og hver einstakur ráðsmaður skuli ávallt hafa „rétt til að aðgæta reikningshald og skjöl öll, er stofnunina varða.“

Þá taldi hæstv. ráðh., að það hefði verið rétt af póst- og símamálastjóra að hlýða skilyrðislaust úrskurði lögreglustjóra, og að úrskurður hans hefði verið réttmætur. Út af þessum ummælum hæstv. ráðh. vil ég segja honum það, að ég býst ekki við, að póst- og símamálastjóri sé á þeirri skoðun, nú að minnsta kosti. Úrskurðina segist hann t. d. ekki hafa hjá sér nú, því að hann hafi sent þá í stjórnarráðið til áfrýjunar. Þó að ekki sé langt síðan úrskurðir þessir féllu, býst ég samt við, að hann hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að þeir væru ekki sem heppilegastir fyrir stofnun þá, sem hann veitir forstöðu.

Þá sagði hæstv. atvmrh., að hann teldi óheppilegt, ef lögreglustjóri kæmist að þeirri niðurstöðu, að úrskurðirnir ættu að komast fyrir sjónir almennings með nöfnum þeirra manna, sem hlustað var hjá. Það má vera, að þetta gæti orðið óheppilegt fyrir hann, en það myndi áreiðanlega ekki verða neitt óþægilegt fyrir þá, sem hlustað var hjá. Ummæli þessi get ég því ekki skilið á annan veg en þann, að hæstv. ráðh. telji eitthvað bogið við þessa úrskurði. Símamálastjóri hefir sjálfur sagt það við mig, að hann teldi rétt og sjálfsagt að birta þessa úrskurði opinberlega. Hverjir eru það þá, sem ekki vilja láta opinbera þetta? Það er ekki sjáanlegi, að það geti verið aðrir heldur en ríkisstj., og þá kannske lögreglustjóri. En af hverju má þá ekki birta þessa úrskurði? Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvað sé verið að fela. Þeir, sem þetta mál snertir að öðru leyti, kæra sig ekki um að láta fela neitt. — Ég má væntanlega taka svar hæstv. atvmrh. þannig, að hann muni á engan hátt vilja stuðla að því, að ég eða aðrir menn í þessu ráði nái rétti sínum í því að fá að sjá þessa úrskurði, og þá væntanlega ekki heldur greiða götu okkar í því að komast að því, hvort síminn hafi ekki verið notaður í njósnarlegu tilliti meira heldur en ennþá hefir komið í dagsins ljós. Það er þetta, sem ég krefst að fá aðstoð ráðh. til þess að ganga úr skugga um, því ég skoða mig hafa rétt til að hafa aðgang að öllu, sem stofnunina varðar verulega.