25.04.1936
Neðri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í D-deild Alþingistíðinda. (3141)

130. mál, símaleynd

*Sigurður Kristjánsson:

Út af því, sem hæstv. forseti sagði, skal ég fúslega viðurkenna það, að það er alveg rétt hjá honum, að þetta mál er vel þess vert, að það sæti þinglegri meðferð heldur en að vera rætt utan dagskrár. En ég á ekki annars kost, þegar ég þarf að fá svar ríkisstj. tafarlaust, því það mundi taka sinn tíma að fá þetta á dagskrá, ef það ætti að berast upp í fyrirspurnarformi. En hinsvegar vil ég algerlega mótmæla því, að þetta mál, sem hér er um að ræða, sé á nokkurn hátt viðkomandi því máli, sem það fyrst var rætt í sambandi við. Þetta mál er alveg út af fyrir sig.

Út af því, sem hæstv. atvmrh. sagði nú síðast, þarf ég lítið að segja. Hann heldur áfram á þessum leiðinlega sneypulega flótta, sem hefir einkennt alla hans framkomu í þessu máli. En ég get fullvissað hæstv. ráðh. um það, að það hefir ekki stigið mér til höfuðs að vera í þessu ráði, því ég var einn af þeim, sem var á móti því að setja það: en úr því að ég hefi nú verið skipaður í þetta ráð, þá vil ég reyna eftir fremsta megni að gera þar skyldu mína.

Hæstv. ráðh. sagði þá firru, að þetta mál kæmi símanum ekki við á annan hátt heldur en að hlýða því, sem lögreglustjóri hefði fyrirskipað. Þetta er vitanlega hin mesta firra, því það er enginn maður svo aumur, að hann hlýði án umhugsunar um það, hvort hann sé hafður fyrir rangri sök eða þess sé krafizt af honum, sem honum ekki ber skylda til. Og þess vegna er þeim mönnum skylt, sem falin er forstaða stórra og mikilsvarðandi þjóðarstofnana, að grannskoða, hvernig þeim beri að bregðast við því, sem af þeim er krafizt, hvort sem það er lögreglan eða aðrir. Símamálastjóra bar því að hugsa sig vel um, áður en hann hlýddi þessari fyrirskipun, þar sem hann er „trúnaðarmaður allra símanotenda“ og ber ábyrgð á því, að þeim sé ekki misboðið á neinn hátt. Honum bar að athuga það, hvað væri hans skylda í þessu máli, og hún var fyrst og fremst sú, að bera þetta undir það ráð, sem löggjafarþingið var nýbúið að setja sem yfirstjórn yfir þessa stofnun og gefinn er ákveðinn og mjög víðtækur rannsóknarréttur. Í öðru lagi bar honum að leita úrskurðar æðri dómstóls um það, hvort honum bæri að hlíta svo óvenjulegri og alveg undraverðri ráðstöfun. Og hann hefir nú komizt að þeirri niðurstöðu, að sér hafi borið að gera þetta, og er nú búinn að áfrýja þessum úrskurði. — Það getur vel verið, að hæstv. ráðh. hafi stigið svo til höfuðs sú upphefð, sem hann nú er kominn í, að hann hafi gleymt því, hvað sé skylda manna í hans sæti, en það er áreiðanlegt, að það hefir stigið honum svo til höfuðs, að hann hefir gleymt því að setja sig inn í orð og anda þeirra laga, sem sett hafa verið um þær stofnanir, sem undir hann heyra. Það heyri ég á því, að hann segir aðra eins firru og þá, að símanum komi þetta mál ekki að öðru leyti við en að hlýða því. Ég held, að hann sé einn allra landsmanna um þá skoðun, og að það sé jafnvel fyrir neðan skilning þeirra, sem minnst hugsa um það, sem fyrir augu þeirra og eyru ber.

Ég skal svo ekki elta ólar við hæstv. ráðh. meira um þetta, en aðeins geta þess, að það mun vera til æðra vald heldur en hann til þess að veita mönnum rétt sinn í þessu máli, og það getur verið, að þess verði neytt.