25.04.1936
Neðri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (3143)

130. mál, símaleynd

*Ólafur Thors:

Hér á Alþ. hefir hvað eftir annað verið beint eindregnum tilmælum til hæstv. forsrh. og atvmrh. um að upplýsa, samkv. hvaða „rökstuddum grun“ um glæpsamlegt atferli fyrirskipuð hafi verið hlustun í síma í sambandi við bílstjóraverkfallið í vetur. En það hafa ekki fengizt nein svör um þetta. Þá hefir einnig verið beint þeirri ósk til lögreglustjóra, að hann afhenti afrit af úrskurðum þeim, sem hann sjálfur hefir viðurkennt að hafa gefið út í sambandi við þessar njósnir. En hann hefir neitað að verða við þeirri ósk. Og ég hefi einnig snúið mér utan þings til hæstv. dómsmrh. og beðið hann að hlutast til um, að mér yrði látið í té afrit af þessum úrskurðum, en hæstv. ráðh. hefir ekki heldur viljað verða við þeim tilmælum. Það er ennfremur upplýst, að símamálastjóri hefir neitað að verða við þeirri réttmætu kröfu ráðamanna stofnunarinnar að fá aðgang að þessum skjölum.

Mér sýnist þess vegna, að eftir þessum leiðum muni ekki takast að svipta burtu þeirri leyndarblæju, sem hæstv. ríkisstj. hefir látið hvíla yfir þessu máli, en engin sanngirni mælir með, að verði látin haldast. Ég mun þess vegna leggja það til, að Sjálfstfl. taki það til athugunar að flytja þáltill. samkv. 34. gr. stjórnarskr., um skipun rannsóknarnefndar innan þessarar d. eða Ed. til að rannsaka þetta mál, og að sú n. fái það rannsóknarvald, sem þessi gr. stjórnarskr. heimilar, þ. e. a. s. vald til þess að yfirheyra embættismenn og starfsmenn og fá frá þeim skýrslur, sem lúta að þessu máli. — Ég mun sem sagt bera það undir Sjálfstfl., hvort hann telji ekki ástæðu til að bera fram slíka þáltill., og mundi málið þá væntanlega upplýsast.