29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í D-deild Alþingistíðinda. (3149)

130. mál, símaleynd

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég mun með nokkrum orðum aðeins minnast á þá þáltill., sem hér liggur fyrir. Hinsvegar mun ég ekki, jafnvel þó að nokkur ástæða væri til, fara út í hið svokallaða hlerunarmál í síma, sem mikið hefir verið rætt undanfarna daga, bæði hér á þingi og eins í blöðum í bænum, jafnvel þó að ástæða hefði verið til út af því, að einstakir menn hafa verið bornir svo miklum brigzlum og ásökunum, að það er vægast sagt alveg óviðeigandi. Á ég þar sérstaklega við þau mjög svo óviðeigandi brigzlyrði, sem borin hafa verið á lögreglustjóra og einn af starfsmönnum landssímans, Guðmund Pétursson. Ég mun þó ekki fara út í það atriði, því að það hefir verið rætt talsvert hér áður.

Það, sem farið er fram á í þessari þáltill., er að skipa n. eftir 34. gr. stjskr. Þessi n. á að rannsaka, að hversu miklu leyti og í hvaða augnamiði símaleyndin hefir verið rofin og að hærra tilhlutun.

Nú hefir verið upplýst af hæstv. stj., að engin hlerun eða hlustun í síma hafi átt sér stað öðruvísi en að undangengnum dómsúrskurði frá þeim dómara, sem hefir með þan mál að gera hér í Rvík., en það er lögreglustjóri, þó að því hafi verið haldið fram nú síðast í ræðu hv. þm. G.-K. og einnig af flokksmönnum hans, að þessar njósnir, sem þeir svo kalla, hafi verið mjög víðtækar og langt fyrir utan ramma þeirra úrskurða, sem gefnir hafa verið út í þessum málum. Þessar dylgjur eru einnig aðdróttanir gegn hreinni og beinni yfirlýsingu, sem komið hefir fram um þetta atriði bæði frá hæstv. stj. og þeim manni, sem að sjálfsögðu getur bezt um það dæmt, hversu mikið hefir verið hlustað í símann, en það er landssímastjóri. Ég mun ekki frekar fara inn á þær aðdróttanir, en þær eru þess eðlis, að fyrir þeim eru engin rök færð eða neitt, sem nefnzt gæti því nafni, enda eiga þær ekki við neitt að styðjast.

Málið liggur þannig fyrir, eftir því sem upplýst hefir verið hér á þingi, að lögreglustjórinn í Rvík hefir í tveimur tilfellum úrskurðað, að hlusta skyldi í tiltekin númer, sem koma fram í úrskurðum hans. Það er engum vafa bundið, að lögreglustjórar hafa heimild til samkv. gildandi landslögum að kveða upp slíka úrskurði. Jafnvel þó að lögreglustjóri hafi ekki næga ástæðu til að kveða úrskurðina upp, þá er hann ekki þar með að fara út fyrir sitt valdsvið, heldur hefir honum skjöplazt í sinni dómgæzlu, þegar meta átti, hvort nægar ástæður voru til að kveða upp slíka úrskurði. (SK: Hvar er lagastafur fyrir þessu?). Það hefir verið bent á, að það sé viðtekin regla í öllum löndum, að dómari má kveða upp úrskurði um, að fara megi inn á einkalíf manna til þess að upplýsa glæpsamlegt athæfi. Það er heimilt að gera húsrannsókn hjá mönnum, rannsaka bréf þeirra og annað, sem dómari telur, að geti upplýst það mál, sem rannsaka á. Um þetta getur engin deila staðið milli þeirra manna, sem hafa eitthvert vit á lögfræði. (SK: Þetta er ósatt). Mig varðar lítið um, hvað hv. 6. þm. Reykv. segir um þetta. Hann getur gefið sig út sem sérstakan fræðimann á sviði útgerðar og fiskimála. En þó að kunnátta hans sé ekki mikil á útgerðarmálum, þá má ég þó fullyrða, að hún er enn minni á þeim málum, sem ég er hér að ræða.

Þannig liggja þá málin fyrir. Úrskurðirnir hafa verið kveðnir upp af dómaranum. Spurningin er þá þessi: Hefir þessum dómara skjöplazt í úrskurðum sínum? Og hver á að dæma um það? Er það Alþingi eða einhver n. kjörin af hálfu Alþingis? Nei. Stjórnarskráin hefir sjálf ákveðin fyrirmæli um, hver dæma skuli um það. Það er æðri dómstóll, ef hann er til yfir undirdómurunum. Annars er það æðsti dómur, sem í hverju landi á að gefa endanlegan úrskurð um það í þessu máli eins og öðrum. (TT: Þetta er bara þvæla). Ég held, að hv. þm. Snæf. sé smitaður af hv. 6. þm. Reykv., af því að hann situr svo nærri honum, og skilji þess vegna ekki það, sem hér er verið að tala um.

Nú er farið fram á í þessari þáltill. að skipa rannsóknarnefnd eftir 34. gr. stjskr. Hvað á hún þá að athuga? Hún á að athuga gerðir dómarans í Rvík. M. ö. o., það á að skipa n., sem er framkvæmdalegs eðlis, til þess að rannsaka gerðir lögskipaðs dómstóls í Rvík. Þetta nær engri átt. Tilgangur 34. gr. stjskr. er alls ekki sá og hefir aldrei verið, að skipa skuli n. á Alþingi, og þar með er það pólitísk n., því að fyrst og fremst eiga þar sæti þeir menn, sem skipa sér í ákveðna flokka, og eftir 34. gr. stjskr. eiga aðeins alþm. að eiga sæti í slíkri n., og svo á hún að rannsaka gerðir dómstólanna í Rvík. Hér er farið inn á nýja og háskalega braut, ef framkvæmdarvaldið á að vera að fyrirskipa á þennan hátt að rannsaka gerðir dómsvaldsins. Í 55. gr. stjskr. stendur: „Dómendur skera úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda.“ Og það er enginn vafi, að í þeim störfum, sem lögreglustjóri framkvæmdi, þegar hann kvað upp þessa úrskurði, þá var hann að framkvæma það sem embættismaður og dómari í Rvík. Ef hann hefir farið út fyrir valdsvið sitt, þá er það dómstólanna, en ekki Alþingis að dæma um það. Hæstv. forsrh. upplýsti greinilega í sinni ræðu, að til þess eru dómstólarnir, að þeir skeri úr ágreiningi, sem rís upp, bæði milli einstaklinga og eins milli einstaklinga og þess opinbera. Þess vegna getur það engin rök átt sér, að Alþingi skipi rannsóknarnefnd til þess að dæma um þetta atriði. Hitt hefði Alþingi getað gert, krafizt þess, að lögreglustjórinn í Rvík væri settur af. Það er heimilt, þar sem hann fer með umboðsvald og er því afsetjanlegur eins og aðrir dómarar, sem hafa á hendi dómarastörf og framkvæmdarvald. Það hefði einnig verið hægt að gera kröfu um, að landssímastjóri yrði settur af, og það hefði verið hægt að krefjast þess að setja fleiri menn af, en að því búnu hefði þurft að skipa rannsókn á hendur þessum mönnum. En sú rannsókn hefði ekki átt að framkvæmast af pólitískri n. alþm., heldur af dómstólum landsins, og þeir kvæðu svo upp úrskurð um, hvort þessir embættismenn hefðu gert nokkuð, sem gerði það að verkum, að hægt hefði verið að setja þá af embætti fyrir þær sakir, og þessir menn hefðu getað gert kröfu um, að dómstólarnir dæmdu um það, með því að fara í mál við ríkið, með því að krefjast bóta fyrir frávikninguna og launa fyrir að þeim hafi verið vikið frá án lögfullra ástæðna.

Ég held því, að þessi þáltill. sé byggð í misskilningi hv. flm., þeim misskilningi, að það sé hægt eftir 34. gr. stjskr. að setja rannsóknarnefnd yfir dómstólana í landinu. Til þess hefir aldrei verið ætlazt með 34. gr. stjskr., og hún hefir aldrei verið notuð þannig, svo að ég viti til. Þess vegna eiga sjálfstæðismenn að fara inn á einhverja aðra leið, ef þeir vilja koma fram einhverri ábyrgð á hendur þessum mönnum, en þessa leið. Hún er ófær og þar að auki er hættulegt að fara inn á hana, eins og ég hefi sýnt fram á.

Ég geri ráð fyrir, að síðar í umr. komi fram ákveðin till. um það, hvað eigi að gera við þessa till., hvort hún verður felld eða henni vísað frá með rökst. dagskrá, og verður þá frekari grein fyrir því gerð.