29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (3150)

130. mál, símaleynd

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Ég get ekki látið hjá líða að láta í ljós undrun mína yfir því, að nú á þessum fundartíma, þar sem hv. þm. var vitanlegt, að þetta mál yrði rætt, skuli sitja hér í d. aðeins andstæðingar hæstv. stj. Ég veit ekki, hvernig maður skýrir þetta, hvort stjórnarliðið vill sýna fyrirlitningu sína á þessu máli, sem hér er til umr., og þess fánýti, eða að þeirra fjarvera sé vegna þess, að þeir séu sammála þeim, sem flytja till., um að hér sé nauðsynjamál á ferðinni, og það jafnvel svo, að þeir geti ekki heyrt hæstv. ráðh. standa fyrir svörum í þessu máli. Þetta er undarlegt og þetta er óskiljanlegt, ef annaðhvort af þessu tvennu er ekki ástæðan, og ég vil segja, að það er óviðurkvæmilegt og óverjandi, þar sem hér er mál, sem áreiðanlega a. m. k. íbúar Rvíkur og væntanlega Hafnarfjarðar líka eru ákaflega áhugasamir um, hvernig fara muni hér á þingi, og hvaða ráðstafanir muni verða gerðar til lagfæringar á því, sem farið hefir aflaga á sviði símans. — Ég skal svo ekki hafa þennan formála lengri, en hver, sem lítur yfir hv. þm., getur sannfært sig um, að það er undarlegt, hvernig d. er skipuð. Stjórnarliðið hefir ekki sézt síðan kl. 5, þegar málið var tekið til umr. Og nú nýlega hafa mörgum sinnum verið tekin fyrir mál að mér fjarverandi, sem hæstv. forseti vissi þó, að ég kaus að taka til máls í, þó að það sé mjög sjaldgæft, að ég sé fjarverandi hér í þessari hv. deild, en þeir taka sér meiri fríðindi stjórnarliðar en það, eins og reyndar oftar, að láta sjálfstæðismenn ekki taka til máls.

Mér þykir ískyggilegt hjá hæstv. forsrh., að mér skildist hann sem stjórnarherra ganga út frá því sem meginreglu, að allir borgarar séu glæpamenn, og því sé eðlilegt, að yfir höfði þeirra hangi þetta vald, að það megi hnýsast í bréf þeirra, síma og símskeyti og yfirleitt koma að þeim óvörum, hvernig sem högum þeirra er háttað, og ríkisvaldið hafi stöðugar njósnir og eftirlit með borgurum landsins til þess, eins og hæstv. ráðh. orðaði það, að vernda þá borgara landsins, sem liggja ekki undir grun fyrir lögbrot, svo að það er þá líklega einhver lítill hluti borgaranna, sem liggur ekki undir grun.

Ég þekki og veit, að þessi stefna er til, en fyrst og fremst í harðstjórnarlöndum. Þar á hún heima, og þar ber mikið á, að alltaf sé verið að búast við, að eitthvað sé gert, sem stjórnarvöldunum kemur illa, og þess vegna alltaf haft eftirlit með þeim, sem ekki fylgja stj., og beitt öllum brögðum til að safna eldsglæðum yfir höfuð þeirra, sem kemur einn góðan veðurdag fram. Þessi starfsemi er rekin með miklum krafti og skipulagi, til þess að geta rekið það í nefið á þeim einn góðan veðurdag, að það sé nú fleira vitað um þeirra líf en þeir vilji láta koma opinberlega fram.

Við Íslendingar eigum að mótmæla þessu. Hér á landi á að stjórna með það fyrir augum, að yfirleitt séu borgararnir löghlýðnir og það beri að umgangast þá sem frjálsa menn, en ekki ein og þeir væru allir börn eða fábjánar, eða afbrotamenn og stjórnarvöldunum sé falið fyrst og fremst að líta eftir þessum lýð. Það á ekki að stjórna þannig, að höfð séu afskipti af öllum þeirra málum og þeir aldrei látnir afskiptalausir í neinu. Það ískyggilega við stjórnarfar síðustu ára er þetta, að það ber alltaf meira og meira á því, að embættismannavaldið er að taka sér í hendur umráð yfir öllum högum borgaranna, fjárhagslífi og atvinnulífi, og líka í framferði þeirra og siðferði og yfirleitt hverju sem er í þeirra einkalífi. Þetta getur gengið of langt, og það er ískyggilegt að heyra hæstv. forsrh. vera að breiða sig út yfir það, að hér sé ekki meira aðgert en svo, að menn megi vera ánægðir, þar sem ríkisvaldið hafi leyfi til að fara inn á heimili manna og skoða þar hvern kopp og kirnu, fara á pósthúsið og rífa upp bréf þeirra til að leita að ásökunum og meintum grun um afbrot. Menn megi vera ánægðir, meðan ekki sé gengið lengra í þessa átt en orðið er. Þetta er rauð stjórnarstefna, sem við verðum að kveða niður.

Hvað snertir þessa till., sem hér liggur fyrir, finnst mér, að hæstv. forsrh. og hv. 1. landsk. fari ákaflega mikið villir vegar í umr. Við fyrri umr. um þetta mál setti ég fram þá ósk, að til þess að fram kæmi æðsti dómur um þessa úrskurði, þá yrði þeim áfrýjað til hæstaréttar, og fá þannig úr því skorið, hvort þeir stæðust og yrðu þar taldir réttmætir. Þessu var þá tekið ákaflega fjarri. En nú virðist hæstv. forsrh. hafa gripið til þess, eins og síðasta hálmstrás, að nú sé búið að áfrýja þessum úrskurðum til hæstaréttar, og það megi þess vegna allir vel við una, því það komi ljóst fram á sínum tíma, hvort þeir hafi verið réttmætir eða ekki. — Þetta er gott, svo langt sem það nær, og var sjálfsagt af ríkisstj. að gera það, úr því að landssímastjóri gerði það ekki strax, eins og hann átti að gera. Að svo miklu leyti sem dóms er þörf um þetta atriði, þá er gott og sjálfsagt, að þetta sé gert.

En þetta er ekki nema ein hlið málsins. Það er sú hliðin, sem snýr að ríkisstj. og öllum dómurum þessa lands. Það þurfa allir dómarar að vita, hvort slíkir úrskurðir þeirra fá staðizt eða ekki. En þó verður þetta á engan hátt tæmandi. Þótt hæstiréttur felli dóm um þessa úrskurði, þá segir það ekkert um það, hvort framvegis megi hlera í síma í sambandi við eitt eða annað, sem fyrir kann að koma. Það getur komið í ljós, að það megi hlera — eða að ekki megi hlera — þegar grunur sé um brot gegn áfengislöggjöfinni. Það kann líka að koma í ljós um þá hlerun, sem var í sambandi við bílaverkfallið, að hún hafi verið heimil — eða ekki heimil — í því tilfelli. En meira fæst ekki upp úr þessu. Hæstiréttur heldur sér vitanlega við þau skjöl, sem fyrir liggja í þessu máli.

Hinsvegar vita allir hv. þdm. það, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, er miklu stærra en þetta. Öryggi símanotendanna bæði hér í Rvík og í Hafnarfirði og öryggi ritsímanotenda er alls ekki tryggt með þessu, og allir vita, að hér í bæ leikur sterkur grunur á því, að miklu meira sé gert af því af hálfu ríkisvaldsins heldur en hér er fram komið að hlera í símann. Það er almennt álitið, að síminn sé svo ótrúlega misnotaður af stjórnarvöldunum, að það mundi vekja hina mestu undrun og óbeit, ef ljóst yrði, — að þar sé beinlínis rekin pólitísk njósnarstarfsemi með því að hlera á það, sem andstæðingar stj. tala í síma.

Það hvílir líka sterkur grunur á því, að öll símskeyti séu undir skoðun, og margir segja, að full vissa sé fyrir því, að öll skeyti héðan til útlanda og frá útlöndum hingað séu undir skoðun að tilhlutun ríkisstj., án þess að úrskurður liggi fyrir um slíkt af hálfu lögregluvaldsins, heldur sé þetta almenn njósnarslarfsemi, og mörg atriði, sem einstakir menn hafa tekið eftir, benda til þess, að svona sé —, og það er víst, að yfirstjórn símamálanna misbeitir valdi sínu.

Hingað berast stundum fregnir um það, að skeyta- og ritskoðun sé viðhöfð í einu eða öðru landi, og er það helzt þegar uppreist er hafin eða virðist vera fyrir dyrum, og er þá gert til þess að ekki fréttist um hið raunverulega ástand, eða þá að einræðisstjórnir — harðstjórnir — grípa til slíkra ráða, til þess að ekki fréttist um ofbeldisverk þeirra og þrælatök. — En hér er ekki um neitt uppreisnarástand að ræða og engin þörf á slíkum varúðarráðstöfunum. Enda er hinn almenni grunur sá, að þessar hleranir og skeytaskoðanir séu framkvæmdar til þess að skyggnast inn í prívatlíf manna og reyna á þann lævíslega hátt að fá vitneskju um eitthvað, sem síðar meir væri hægt að reka í nefið á stjórnarandstæðingunum, er gæti komið þeim óþægilega. Þetta er óþolandi ástand og full ástæða til að krefjast rannsóknar á því, hvort þessi almenni grunur er réttur. Og það er full þörf á því fyrir þingið, að þetta mál sé rannsakað út í æsar, til þess þá, ef engin löggjöf er til um þetta efni, að geta sett löggjöf um það, hvað skuli heimilt og hvað óheimilt.

Því fer fjarri, að það fullnægi símanotendum í bráð eða lengd, til þess að þessi grunur falli niður, að úrskurðum lögreglustjóra í þessum tveimur tilfellum sé áfrýjað til hæstaréttar.

Hæstv. ríkisstj. ætti að vera það ljúft, að þannig fari með þetta mál, að þessi stofnun gæti orðið eins örugg og notið eins mikils trausts eins og áður.

Það er vitanlega fjarstæða ein, og líka gert til þess að villa sýn, þegar þeir hæstv. forsrh. og hv. 1. landsk. láta svo sem hér sé um að ræða dómstól yfir lögreglustjóra Rvíkur. Þetta er rannsóknarnefnd, en enginn dómstóll, og á að rannsaka, hvað gert hefir verið. (StJSt: Hvað á hún að rannsaka?). Ef hv. 1. landsk. er það ekki ljóst ennþá, hvað á að rannsaka, þá er eins og hann hafi ekki verið hér í hv. d. Nú hefir hann verið valinn til að gangast hér við faðerni að þeirri rökst. dagskrá, sem hér kom fram. Kannske það hafi verið gert vegna þess, að hann hafi ekki hlustað á undanfarandi umr. um málið.

Ég tel ekki þörf á því að biðja um leyfi til að lesa till., en á orðalagi hennar er hægt að sjá, að hér er ekki um dómstól að ræða, heldur er farið fram á það, að skipuð sé nefnd til þess að gera grein fyrir því, að hve miklu leyti símaleyndin hefir verið rofin og í hverju augnamiði og að hverra tilhlutun; og til þess að komast að þessu hefir n. heimild til að yfirheyra og fá skýrslur frá hlutaðeigandi starfsmönnum. — Nei, nefndinni er ekki ætlað að leggja neinn dóm á lögmæti úrskurðanna, — eingöngu að rannsaka þetta.

Það er rétt, sem hv. þm. hefir bent á, að lögmæti úrskurða lögreglustjóra verður að ákveðast af hæstarétti, en ekki af þingnefndum, og úr því að stj. ætlar að fullnægja því atriði að áfrýja úrskurðunum til hæstaréttar til að fá þar dóm um lögmæti þeirra, þá er rétt af henni að fullnægja líka þessu atriði og láta það koma fram, hvort kvartanir og grunsemdir símanotenda eru á rökum reistar eða ekki, og síðan að búa svo um, að öryggi stofnunarinnar — símans — sé tryggt og hann þar af leiðandi geti notið fulls trausts hjá viðskiptamönnum sínum. Ég veit, að hæstv. forsrh. skilur þetta og að hann hefir heyrt af viðtali við ýmsa menn hér í bænum, að þessar símahleranir hafa vakið óvanalega mikla undrun manna og mikið hneyksli hér í bæ, og þessi athugun þarf að fara fram, svo menn fái fullljósa grein fyrir því, hvernig þetta stendur. Ekki sízt þegar hv. l. landsk. orðar sín andmæli þannig, að ekki dugi að vera með aðdróttanir hér í hv. d. til opinberra starfsmanna. Satt að segja vissi ég ekki vel, hvað hann átti við með þessum orðum. Líklega helzt það, að þessar aðdróttanir dygðu ekki sem rök fyrir þeirri þáltill., sem við flytjum hér. En mér finnst, að illur grunur borgaranna ætti að nægja til þess að ríkisstj. eigi að hreinsa símann og sjálfa sig of þessum grun, ef það er hægt, og til þess þarf að skipa þessa nefnd og láta hana rannsaka öll gögn og gera svo árangur rannsóknarinnar heyrinkunnan. Borgararnir geta ekki tekið sér sjálfir það vald, sem ríkisstj. tók sér, að láta hlera í símann, og til þess að rannsaka þetta mál til þrautar dygðu ekki heldur símahleranir. Ég skil ekki þann meirihl.flokk, sem leggur á móti þessari till. án þess að hann geri þá sjálfur einhverja álíka ráðstöfun til þess að leggja öll göng í þessu máli á borðið.

Ég mun svo láta máli mínu lokið í þetta sinn, en vil þó að lokum minnast aðeins á þau orð hæstv. forsrh., sem mér fannst að væru sérstaklega einkennandi fyrir afstöðu hans til úrskurða lögreglustjóra. Þessi orð eru svo fjarstæð og svo auðvelt að hrekja þau, að það þarf ekki annað en að hafa þau upp til þess að allir sjái, hve staðlaus þau eru. Hann sagði, að það hefði aldrei heyrzt, að lögreglustjóranum í Rvík væri ekki treyst til að kveða upp rétta dóma. En hvers vegna er þá verið að áfrýja þessum dómum til hæstaréttar? Er það ekki einmitt vegna þess, að dómaranum getur skjátlazt? (Forsrh.: Ég sagði óhlutdræga dóma. Það snýst allt við í höfðinu á þessum hv. þm. — ÓTh: Það er nú eftir því, hvaða lögreglustjóra hæstv. forsrh. hefir átt við). En eins og það er hlutverk hæstaréttar að ákveða um lögmæti úrskurða og dóma. eins liggur það í verkahring þessarar n. að athuga, á hvern hátt, í hvaða augnamiði og að hverra tilhlutun símaleyndin hefir verið rofin, svo að öllum almenningi verði það ljóst, hvernig þessum hlustunum hefir verið hagað hingað til.