29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (3164)

130. mál, símaleynd

*Ólafur Thors:

Hæstv. forsrh. sagðist hafa veitt athygli fyrirlitningarsvip á andlitum allra hv. þm. Ég tók líka eftir þessum svip. Hann hefir verið á andlitum manna allt frá kl. 6 í dag, er hæstv. ráðh. flutti varnarræðu sína. Menn fylltust þá fyrirlitningu, og hún hefir farið vaxandi, því berari sem hann hefir orðið að óráðvendni og jafnframt klaufalegri vörn. Við skömmumst okkar ekki aðeins fyrir óráðvendni forsrh. okkar, heldur líka klaufaskap hans, því að þótt hann vanti ekki viljann til að verja sinn vonda málstað, þá vantar hann vitið til þess. Ég þori að leggja það, ekki aðeins undir mína flokksbræður, heldur líka undir hans flokksbræður, hvor okkar heldur betur á málunum. Það hefir tekið hann um 5½ klukkutíma að koma auga á þennan fyrirlitningarsvip, sem hann minntist á. — Ég sé nú líka, mér til mikilla vonbrigða, að mér hefir ekki lukkazt að gera honum skiljanlegt, hvað ég meinti með fyrirspurn minni. Ég spurði, hvað það væri í sambandi við bílstjóraverkfallið, sem benti á, að framin hefðu verið lögbrot eða fremja hefði átt lögbrot og réttlætt hefði, að friðhelgi símans væri rofin, til að koma upp um þau. Fyrri part fyrirspurnarinnar skildi hann, en ekki þann síðari. Hann gaf það svar, að hv. þm. V.-Sk. hefði verið stöðvaður á leið sinni austur og að matvælaflutninga til bæjarins hefði átt að stöðva. En ég get ekki skilið, hvað þetta kemur því við, að friðhelgi símans var rofin. Það þurfti engan veginn að rjúfa friðhelgi símans til að fá að vita, að Gísli Sveinsson hafði verið stöðvaður. — Hv. þm. hefir enn ekki svarað þeirri kröfu okkar, að hann upplýsti, hvaða rökstuddur grunur um afbrot hefði legið fyrir, þannig, að ekki hefði verið hægt að upplýsa það án þess að rjúfa friðhelgi símans.

Ég fullyrði það, sem allir hv. þm. vita, að ég segi satt, en hæstv. ráðh. fer rangt með. Ég fullyrði, að úrskurður um símanjósnir í sambandi við bílstjóraverkfallið var kveðinn upp með vitund og vilja hæstv. forsrh. — Hann býður mér að endurtaka þessi ummæli utan þinghelginnar, til þess að hægt sé að upplýsa málið. Ég hefi þegar sagt, að það er bara til ein leið til að fá þetta upplýst, og hún felst í þáltill., sem um er að ræða. Hitt er auðvelt fyrir hann, að hóta, að hann skuli stefna mér, þar sem hann veit, að ég get ekki sannað málið formlega, þótt ég viti það með vissu. Ef hæstv. ráðh. telur sig hafa slíkan málstað, að hann þori að mæta við réttarrannsókn, þá skora ég á hann að samþ. þessa till., sem opnar mér leið til hins sama.