30.03.1936
Sameinað þing: 8. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (3175)

62. mál, raforkuveita frá Soginu

Páll Zóphóníasson:

Ég hefi dálítið sérstaka skoðun í þessu máli, og sú skoðun hefir orðið ríkari hjá mér, því meir sem ég hefi um þetta mál hugsað. Ég er sammála þeim mönnum, sem líta svo á, að sjálfsagt sé að gera það, sem hægt er, til þess að rafmagnskrafturinn, sem liggur falinn í fallvötnum landsins, verði notaður, og það sem fyrst. En mér virðist flest það, sem enn er gert í þessa átt, miða meira að því að láta einstakar minni heildir njóta þess heldur en allan almenning. Í þessa átt virðist mér einnig framkvæmdir Sogsvirkjunarinnar hníga. Það, sem mér finnst þurfa að gera, er það, að rannsakað sé, hvaðan hver einstakur staður geti fengið ódýrast rafmagn. Þegar það hefir verið gert, þarf að skipta landinu í heildir utan um þau fallvötn, sem um er að ræða, þannig að hver heild geti fullnægt sinni rafmagnsþörf. Hvað Sogið snertir, þá á það eftir þeirri bráðabirgðaáætlun, sem gerð hefir verið, að geta fullnægt rafmagnsþörf íbúanna austan úr Skaftafellssýslu og vestur í Dali. Það er ekki líklegt eftir þessari bráðabirgðaáætlun, að bæir eða þorp á þessu svæði geti fengið ódýrara rafmagn heldur en frá þessum stað, ef allt svæðið er ein heild. En með því að láta þetta svæði ekki vera eina heild, heldur skipta því niður í ótal búta, sem hver um sig bæri kostnaðinn af því að leggja línur til sín og standa undir þeim, þá væri bara lítill hluti af þessu svæði, sem gæti fengið rafmagn, því það hefir talizt svo til, að það borgaði sig ekki að leggja rafmagn yfir svæði, þar sem ekki kæmu 26 menn á hvern km. leiðslunnar. Þess vegna vil ég leggja til, að um leið og farið er að vinna að þessu máli, þá sé það rannsakað, hvort ekki sé hægt að skipta landinu í rafmagnshverfi utan um fallvötnin. Síðan sé fundið meðalverð, sem hvert hverfi þurfi að borga fyrir rafmagn, og leggja svo fyrst þær línur, sem ágóði fæst af að selja rafmagn á með meðalverði og nota þann ágóða til að fjölga línunum, fyrst þar, sem aðstaðan er góð, og síðan þar, sem hún er verst. M. ö. o., að ágóðinn af þeim línum, sem borga sig, sé látinn standa undir lagningu dýrari línanna.

Í fullu trausti þess, að hæstv. ríkisstj. bæði líti á þetta mál frá þessari hlið og að öðru leyti geri það, sem enn er ógert af því, sem í till. felst, legg ég til, að málinu verði, að þessari umr. lokinni, vísað til ríkisstj.